Enski boltinn

Raheem Sterling: Mamma er minn Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling í leik með Manchester City á móti Liverpool.
Raheem Sterling í leik með Manchester City á móti Liverpool. Vísir/Getty
Raheem Sterling veitti Sky Sports sitt fyrsta stóra viðtal eftir að hann fór frá Manchester City til Liverpool. Sterling talar þar um ástæðuna fyrir því að hann fór frá Liverpool sem og hvaða hlutverk mamma hans hefur í hans fótboltalífi.

„Ef ég segi bara eins og er þá er ég að reyna að bæta mig sem leikmaður og það er það mikilvægasta fyrir mig. Ég taldi að þetta væri besta skrefið fyrir minn feril," sagði Raheem Sterling við Sky Sports um það að fara til Manchester City.

Manchester City keypti hann á 44 milljónir punda frá Liverpool síðasta sumar en Sterling er enn bara 21 árs gamall.

Raheem Sterling og félagar í Manchester City eru tólf stigum á eftir toppliði Leicester í ensku úrvalsdeildinni og úr leik í enska bikarnum en liðið vann enska deildabikarinn og er eina enska liðið í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Raheem Sterling er með 11 mörk og 10 stoðsendingar í  41 leik í öllum keppnum með liði Manchester City á þessu tímabili. Það eru nákvæmlega sömu tölur og hann var með í 52 leikjum með Liverpool í fyrravetur.

Nadine, móðir hans Raheem Sterling, hefur miklar skoðanir á frammistöðu hans inn á fótboltavellinum.

„Eftir leiki fær maður alltaf skilaboð frá vinum og fjölskyldumeðlimum. Ég er viss um að mamma hafi sent mér svona tíu til fimmtán sinnum skilaboð um að ég ætti að vera meira inn í teignum og nær markinu," sagði Raheem Sterling.

„Ég trúi því varla á hversu háu stigi vangaveltur hennar eru. Ég kalla hana reyndar Jose Mourinho því hún heldur að hún sjálf sé hin útvalda," sagði Sterling.

„Hún vissi ekki mikið þegar ég byrjaði að spila sautján ára gamall. Hún þekkti reglurnar og allt slíkt en núna er hún að tala við mig um hluti sem ég er að reyna að bæta mig í," sagði Sterling.

Hann viðurkennir að stundum sé hann þreyttur á þessum aðfinnslum en mest pirrandi er þó oft að þær eru alveg hárréttar hjá mömmu  hans.  Það má lesa allt viðtalið með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Sterling hrósar Liverpool: Meðhöndluðu félagsskiptin af fagmennsku

Raheem Sterling hrósaði Liverpool í viðtali í dag fyrir það hvernig félagið tók á félagsskiptum hans til Manchester City í sumar en hann segist hafa haldið góðu sambandi við leikmenn og þjálfara allt þar til hann gekk til liðs við City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×