Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Njarðvík 80-77 | Fullt hús hjá Einari Árna á móti Njarðvík

Anton Ingi Leifsson í Icelandic Glacial-höllinni skrifar
Vance Hall, leikmaður Þórs.
Vance Hall, leikmaður Þórs. vísir/ernir
Þór Þorlákshöfn vann Njarðvík í lokaleik 20. umferðar í æsispennandi leik liðanna í Þorlákshöfn í kvöld þar sem úrslitin réðust undir blálokin, en lokatölur urðu 80-77 sigur heimamanna í Þór.

Leikurinn var jafn og spennandi nánast allan leikinn, en Þórsarar reyndust sterkari á lokakaflanum. Njarðvíkingar fóru þá nokkuð illa með sínar sóknir undir lok leiksins, en þeir fengu tækifæri til að jafna metin undir lokin, en Jeremy Atkinson brást bogalistinn og Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, því með fjögur stig í tveimur leikjum gegn sínum gömlu félögum i Njarðvík þar sem hann er uppalinn.

Heimamenn skoruðu fyrstu fimm stigin og virtust vel gíraðir í leikinn eftir stórtap gegn Haukum á Ásvöllum í síðustu umferð. Eftir það voru gestirnir frá Njarðvík mættir til leiks, en þeir skoruðu næstu ellefu stig og gestirnir komnir 11-5 yfir. Þá kom hins vegar þurrkur hjá gestunum og Þórsarar skoruðu fjórtán stig gegn engu frá Njarðvík og staðan skyndilega 19-11, en Njarðvík náði aðeins að laga stöðuna áður en fyrsti leikhluti var allur. Staðan 21-20, Þór í vil eftir fyrsta leikhluta.

Heimamenn áttu nokkuð auðvelt með að skora framan af leik og Njarðvíkingar, sem spiluðu virkilega öflugan varnarleik í dag lengstum köflum, lentu í smá vandræðum á þessum tímapunkti, en þeir misstu þó heimamenn aldrei langt frá sér. Þeir jöfnuðu metin í 28-28, en misstu svo aftur Þórsara sex stigum fram úr sér í 34-28. Þá tóku þeir hins vegar frábæran sprett - þristunum rigndi, þar á meðal þrír í röð og þeir voru skyndilega komnir fimm stigum yfir, 39-34.

Það var eins og bæði lið vissu að þessi leikur væri í sjónvarpinu og þau einfaldlega vildu hvorugt stinga af. Bæði lið voru að spila skemmtilegan bolta, en sextán þristar höfðu litið dagsins ljós í fyrri hálfleik, troðsla, svakaleg blokk og fleira gott sjónvarpsefni. Gestirnir leiddu með einu stigi í hálfleik, 44-43 og allt útlit fyrir það að síðari hálfleikurinn yrði sama skemmtun.

Í síðari hálfleik var sama upp á teningnum. Liðin héldust áfram í hendur og mikil barningur og barátta var í leiknum, enda vissu bæði lið að stigin tvö sem í boði voru í kvöld voru gífurlega mikilvæg upp á framhaldið. Þriðji leikhlutinn var algjör barningur og liðin skiptust á að leita. Njarðvíkingar reyndu að veiða Ragnar Nathanaelsson út úr teignum með því að spila Jeremy Atkinson lengra út á vellinum.

Ragnar Örn Bragason lék á alls oddi og var búinn að sejta niður fimm þrista fyrir Þórsara um miðjan þriðja leikhluta. Gestirnir skoruðu hins vegar síðustu fimm stigin í þriðja leikhlutanum og leiddu þegar liðin gengu til bekkja sinna fyrir fjórða leikhlutann, 64-58.

Í þeim fjórða og síðasta var spennan óbærileg. Áfram héldu liðin að haldast í hendur en á tímapunkti hélt maður að nú væri komið að Njarðvík að stinga af, en Þórsarar voru að henda boltanum frá sér á tímapunkti og Njarðvík var fjórum til fimm stigum yfir. Þá komu hins vegar tveir risa, risa stórir þristar frá Vance Hall og kom hann heimamönnum yfir, 79-76, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir.

Njarðvík var með boltann og þeir fengu þrjú víti. Þar fékk Oddur Kristjánsson tækifæri til þess að jafna metin, en hann setti einungis eitt víti niður af þremur og Þór fékk boltann. Njarðvíkingar brutu á Ragnari Bragasyni og hann setti niður eitt víti af tveimur og Þór því þremur stigum yfir, 80-77, og einungis tólf sekúndur eftir.

Njarðvíkingar nýttu síðustu sókn sína afar illa sem endaði með því að Jeremy Atkinson tók frekar vandræðalegt skot sem var aldrei líklegt til þess að fara ofan í og lokatölur þriggja stiga mikilvægur sigur Þórsara, 80-77, sem skjótast með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar.

Vance Hall var stigahæstur hjá heimamönnum með 23 stig, en einnig tók hann tíu fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Næstur kom Ragnar Örn Bragson með 22 stig, en hann spilaði afar vel í kvöld. Hjá gestunum var Jeremy Atkinson stigahæstur með 23 stig, en auk þess tók hann sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hjörtur Hrafn Einarsson kom næstur með 16 stig þar af fjóra þrista.

Þór er, eins og áður segir, í fimmta sætinu með 24 stig, en Þór fer upp fyrir Tindastól á innbyrðisviðureignum en þau eru bæði með 24 stig. Njarðvík er svo í sjöunda sætinu með 22 stig og eins og staðan er núna fáum við grannaslag í Reykjanesbæ, Njarðvík gegn Keflavík, í úrslitakeppninni, en tvær umferðir eru eftir af Dominos-deildinni.

Ragnar: Mjög sterkt að taka fjögur stig gegn Njarðvík

„Þessi sigur var stór. Við þurftum eigilega bara að ná í hann,” sagði Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs, sem átti afar góðan leik í kvöld, en hann skoraði 22 stig.

„Við skulduðum okkur sjálfum og áhorfendum sigur frá því í síðustu skitu og við vorum staðráðnir í að koma og klára þetta hérna í dag.”

„Þetta var helvíti löng bið, en það var fínt að fá loksins þennan leik. Ég held við höfum bara skilað okkar.”

Þór steinlá gegn Haukum í síðustu umferð og segir Ragnar að þeir voru staðráðnir í að bæta fyrir þá skelfilegu frammistöðu í kvöld.

„Það er svo mikið sem við breyttum frá því í síðasta leik. Við vorum bara andlausir, við vorum soft og komum hérna bara í kvöld og vorum ákveðnir og létum finna fyrir okkur.”

„Það er mjög sterkt að taka fjögur stig gegn Njarðvík í vetur. Þetta er mjög sterkt lið, en það vantaði Hauk í dag og okkur vantaði Þorstein Má þannig það jafnast út.”

„Við ætlum að gera fína hluti í úrslitakeppninni og við ætlum að bæta okkar leik fyrir úrslitakeppnina og við byrjuðum á því í dag,” sagði Ragnar að lokum.

Friðrik Ingi: Verður að spyrja Hauk að því

„Auðvitað er maður ekki ánægður með að tapa, en ég er ánægður með margt í leiknum. Mér fannst varnarleikurinn að flestu leyti vera mjög góður og sóknarleikurinn var fínn á köflum,” sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur, í samtali við Vísi í leikslok.

„Svo mér fannst á ákveðnum augnablikum að við hefðum getað gert betur og nýtt ákveðna hluti betur, en ég sé stíganda í liðinu síðustu daga og vikur þannig að ég leit björtum augum á komandi átök.”

„Við fengum tækifæri til að stinga þá meira af þegar við vorum fimm til sex stigum yfir og körfubolti er þannig að ef maður nær því að þá er maður oft kominn á ákveðið skref, en við náðum því ekki.”

„Þór er gott lið og eru hér á heimavelli og við náðum ekki alveg að nýta þann meðbyr sem var með okkur á kafla og heimaliðið náði að komast aftur inn í þetta. Þeir náðu svo að klára þetta í lokin.”

„Mér líst ljómandi vel á framhaldið. Það eru búnar að vera talsverðar breytingar á liðinu allan veturinn og við vorum aðeins að komast á ákveðið skrið, en þá datt botninn úr þessu aftur þegar við misstum leikmenn í meiðsli og veikindi.”

„Það er bara eins og gengur og gerist. Vonandi náum við að fá alla til baka fyrir lokaátökin fyrir úrslitakeppnina sem er framundan og við lítum björtum augum á það.”

Sú fiskisaga flýgur í körfuboltaheiminum að Haukur Helgi Pálsson, einn lykilmanna Njarðvíkur-liðsins, hafi fengið tilboð að utan nýverið, en Njarðvík hafi hafnað því. Veit Friðrik eitthvað um það mál?

„Það held ég ekki, eða ég bara veit það ekki. Þú verður að spyrja hann út í það,” sagði Friðrik Ingi sposkur í leikslok.

Einar Árni: Náðum að bæta upp fyrir hörmungina á Ásvöllum

„Ég er virkilega ánægður með þennan sigur og vinnusigur. Mér fannst Njarðvíkurliðið spila hörkufínan varnarleik hérna í dag,” sagði Einar Árni Jóhannsson, þjáfari Þórs, í leikslok.

„Logi var frábær og ótrúlega duglegur á Vance Hall og þetta var kaflaskipt hjá okkur í dag. Á köflum fannst mér við vera mjög flottir á báðum enda vallarins og svo komu móment eins og í þriðja leikhluta þegar við gáfum þeim svigrúm.”

„Við vorum ekki að ná stoppum og þeir ná sér í forskot þar. Við vinnum okkur inn í þetta aftur og ég er ánægður með hvernig Ragnar og Vance voru að vinna saman á boltaskilunum í toppinn og þar gerðum við þeim erfitt fyrir.”

„Við náðum að sækja dálítið á Atkinson þar og við fengum flest okkar stig þar í restina,” en var farið að fara um Einar þegar Njarðvíkurliðið var sex stigum yfir og Þórsarar fundu fá svör?

„Nei, það er eiginlega versta við þetta að maður er eiginlega í þeirri stöðu að ég var fyrst og fremst að koma hérna og sjá lið mitt bregðast við hörmunginni á Ásvöllum fyrir viku. Ég er virkilega ánægður að sjá hvernig liðið kom til baka.”

„Ef við hefðum ekki unnið hérna í kvöld, þá hefði ég þrátt fyrir það farið með fullt af góðum hlutum út úr honum og miklu, miklu fleiri en í síðasta leik sem var stærsta atriðið.”

„Að lenda í fimmta, sjötta eða sjöunda sæti er ekki stóra atriðið, en við unnum og það gefur okkur tækifæri í að ná okkur upp í fimmta sætið hið minnsta. Það er bara áfram gakk og nú er það bara Höttur eftir tvo daga,” sagði Einar Árni ánægður í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×