Innlent

Sérfræðingar fengnir til að bæta samskipti innan lögreglunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðmundsdóttir, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur ráðið sérfræðinga til aðstoðar við að bæta samskipti innan embættisins. Var það gert í samráði við yfirstjórn LRH en þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, varaþingmanns Vinstri grænna.

Í svarinu segir að síðastliðið vor hafi verið ákveðið, í samráði við Sigríði Björk, að fá utanaðkomandi ráðgjafa til að greina hvort að samskiptavandi væri til staðar innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að ábendingar bárust til ráðuneytisins um að svo væri.

Eins og greint hefur verið frá skilaði ráðgjafinn skýrslu til ráðuneytisins í lok síðasta árs. Hann hafði tekið viðtöl við stjórnendur innan LRH og voru niðurstöður hans í kjölfar þeirra að skýrar vísbendingar væru um samskipta-og samstarfsvanda.

Mat ráðgjafinn það sem svo að vandinn yrði ekki leystur án utanaðkomandi aðstoðar. Taldi hann að ráðast þyrfti í aðgerðir „sem miðuðu að því að taka á umræddum vanda og mælti hann með því að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fengi utanaðkomandi hlutlausan aðila sem yfirstjórn embættisins bæri fullt traust til,“ eins og segir í svari ráðherra. Í kjölfarið voru sérfræðingarnir ráðnir til að aðstoða við að bæta samskiptin.

Rósa Björk spurði Ólöfu út í hvort samskiptavandinn hefði leitt til mistaka í aðgerðum lögreglu en í svari hennar kemur fram að hafi svo verið hafi athygli ráðuneytisins ekki verið vakin á því. Þá telur ráðuneytið ekki ástæðu til að aðhafast neitt varðandi svokallað Hótel Frón-mál þar sem tálbeituaðgerð fór úrskeiðis og burðardýr hlaut 8 ára fangelsisdóm í Hæstarétti.


Tengdar fréttir

Starfsmenn sögðu frá óviðeigandi athugasemdum

Starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu greindu Leifi Geir Hafsteinssyni vinnusálfræðingi frá ummælum vinnufélaga sinna er vísuðu í kynferði þeirra og þeim þótti óviðeigandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×