Enski boltinn

Johnson var átrúnaðargoð stúlkunnar sem hann misnotaði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Johnson mætir í réttarsal ásamt unnustu sinni, Stacey Flounders.
Johnson mætir í réttarsal ásamt unnustu sinni, Stacey Flounders. vísir/getty

Stúlkan sem Adam Johnson, fyrrverandi leikmaður Sunderland, braut kynferðislega gegn var mikill aðdáandi fótboltamannsins. Þetta kom fram fyrir rétti í dag.

Johnson er sagður hafa misnotað aðstöðu sína og yfirburði gagnvart stúlkunni sem var nýorðin 15 ára þegar hann braut gegn henni.

Stúlkan, sem hefur skiljanlega ekki verið nafngreind, er mikill stuðningsmaður Sunderland og Johnson, sem var rekinn frá félaginu í gær, var hennar átrúnaðargoð.

Þannig beið hún reglulega fyrir utan Ljósvang, heimavöll Sunderland, til geta fengið myndir af sér með Johnson, auk þess sem hún átti treyju með nafninu hans aftan á.

Johnson vingaðist við stúlkuna á Facebook og hitti hana svo í bíl sínum fyrir aftan kínverskan veitingastað í lok janúar í fyrra. Á þessum tíma var unnusta hans, Stacey Flounders, ófrísk að þeirra fyrsta barni.

Johnson, sem var meðvitaður um aldur stúlkunnar, færði henni áritaða treyju og sagðist svo búast við að fá „þakkarkoss“ frá henni.

Leikmaðurinn keyrði svo með hana á einangrað svæði þar sem hann snerti hana kynferðislega þangað til henni fór að líða illa.

Skömmu eftir þetta sendi Johnson stúlkunni smáskilaboð. Samskipti þeirra voru sem hér segir:

Hann: Þetta var ekki slæmt, var það?
Hún: Nei, haha.    
Hann: Haha, næst þurfum við að færa okkur í aftursætið lol.
Hún: Haha, já.

Johnson á seinna að hafa sagt að fundur þeirra hafi verið „þess virði“, og bætti við: „Þetta var snilld. Ég vildi bara ná þér úr buxunum lol.“

Sem fyrr sagði rak Sunderland Johnson í gær og þá hefur Adidas sagt upp auglýsingasamningi sínum við leikmanninn sem hefur leikið 12 A-landsleiki fyrir England.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira