Íslenski boltinn

„Ég er djúpt snortinn og Abel er orðlaus“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Abel Dhaira í leik með ÍBV.
Abel Dhaira í leik með ÍBV. Vísir
Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segist ekki hafa átt við jafn sterkum viðbrögðum og hafa verið við söfnun Vodafone og ÍBV fyrir Abel Dhaira, markvörð ÍBV.

Abel greindist með krabbamein í kviðarholi seint á síðasta ári og gekkst undir aðgerð vegna þessa á aðfangadag, 24. desember. Meinið náði þó að dreifa sér og á Abel erfiða baráttu fram undan.

„Maður er djúpt snortinn,“ sagði Óskar Örn spurður um þau sterku viðbrögð sem hafa verið við söfnuninni. Fjölmörg knattspyrnulið hafa stigið fram og gefið sektarsjóðinn sinn í söfnunina, svo sem Stjarnan, Grindavík, Fram og Dalvík/Reynir.

„Sjálfur á Abel ekki orð yfir þessu. Hann er afar þakklátur eins og lesa mátti á Facebook-síðunni hans um daginn.“

Glory be to Almighty God . I would love to thank everyone from the bottom of my heart for the amizing Love , your...

Posted by Dhaira Abel on Friday, February 12, 2016
Óskar Örn segir að óháður aðili hafi verið kallaður til sem hefur umsjón með söfnuninni en miðað við stöðuna á söfnunarreikningnum hafa viðbrögðin verið sterk. Þá á eftir að koma til sá peningur sem safnast í símasöfnun Vodafone.

Hann segir að það hafi aldrei komið neitt annað til greina eftir að Abel veiktist að fá hann til landsins.

„Við fréttum af þessu 24. desember og við vildum fá hann heim eins fljótt og hægt var. Enda er hann okkar leikmaður og samningsbundinn ÍBV. Það var aldrei neitt annað í stöðunni.“

Óskar Örn segir að líðan Abel sé góð eftir atvikum. „Í morgun var hann í fræðslu fyrir lyfjameðferðina sem hefst á morgun. Þetta er allt eftir áætlun. Þetta verður erfið barátta en við ætlum að gera allt það sem við getum til að vinna hana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×