Sport

Conor berst um léttvigtartitilinn í mars

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
UFC sendi þessa auglýsingu frá sér í kvöld.
UFC sendi þessa auglýsingu frá sér í kvöld.

UFC staðfesti loksins í kvöld að Conor McGregor muni keppa um titilinn í léttvigt gegn Rafael Dos Anjos.

Conor varð heimsmeistari í fjaðurvigt í desember og lét þá að því liggja að hann vildi verða fyrsti maðurinn í sögu UFC til þess að vera með belti í tveimur þyngdarflokkum.

Hann sagðist ætla að vinna bæði beltin og síðan verja bæði. Hann fékk leyfi til þess frá UFC og mun því mæta léttvigtarmeistaranum Dos Anjos þann 5. mars næstkomandi.

Búist var við þessari tilkynningu fyrr en McGregor vildi víst fá meiri pening en honum var boðið í fyrstu. Skal engan undra. Hann er langstærsta stjarnan UFC og mokar inn peningum fyrir sambandið.

Bardaginn fer að sjálfsögðu fram á MGM-hótelinu í Las Vegas.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira