Innlent

Mestar áhyggjur eru af landverkafólki

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar

 Verðmæti útfluttra sjávarafurða jókst um tæp 9 prósent, þrátt fyrir viðskiptabann Rússa síðari hluta ársins. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.  Það kemur Valmundi Valmundssyni formanni Sjómannasambandsins á óvart.

„Við verðum líka að taka það til greina að í fyrra var mjög góð loðnuvertíð. Þá var ekki viðskiptabann við Rússlandi. Það vegur upp á móti. Hún var glettilega góð og mikil verðmæti. Það kemur samt talsvert á óvart að það sé svona mikil hækkun á milli ára þrátt fyrir viðskiptabann.“

Valmundur segist mestar áhyggjur hafa af landverkafólki í komandi loðnuvertíð. „Nú er að koma loðnuvertíð. Ef að hún verður góð, hvað á að gera við afurðirnar? Á að bræða þetta allt? Sjómennirnir fá alltaf hlut af sínu, það er verra með landverkafólk. Ég hef meiri áhyggjur af því en sjómönnum,“ segir hann. Hann segir að heilt yfir þá hafi sjómenn skilning á aðstæðum og hann geti ekki skipt sér af pólitík.  
 

Sjómannafélag Íslands tekur dýpra í árinni og gagnrýni á Gunnar Braga Sveinsson hefur verið hörð. Í ályktun félagsfundar Sjómannafélags Íslands sem haldinn var 28.desember síðastliðinn segir að hann eigi að að taka pokann sinn og hypja sig breyti hann ekki afstöðu sinni til þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússum.

Jónas Garðarsson formaður félagsins segist standa við harðskeytta gagnrýni á utanríkisráðherra. „Við stöndum við hana, eins og þetta birtist okkur þá er þetta eins manns sýning. Við hefðum talið rétt að Alþingi Íslands fjallaði um svo róttækar aðgerðir eins og hér er um að ræða.“

Jónas segir spursmál hvort útgerðarmenn sjái sér hag í að sækja aflann.  „Launakjör okkar manna á uppsjávarskipum er í uppnámi þar sem meirihlutinn tengist landvinnslu. Það er spurning hvort að útgerðarmenn sjái sér hag í að sækja aflann.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira