Heilsa

Ert þú alls konar?

Sigga Dögg skrifar
Það er alveg merkilegt þegar fólk ruglar hlutum eins og kynhneigð, kynvitund og kyngervi saman við kynlíf. „Bíddu, er hann, hún eða hann eða…?“ „Er hann með typpi eða á maður að segja er hann með píku eða er hann núna hún en samt enn með typpi?“ „Má hún bara allt í einu vera með konu en var samt með manni, er hún bí eða er hún lessa? Hún verður að ákveða sig.“ Eða það sem alveg setur heilann á sumum í graut. „Ef hann fæddist hún en er nú hún og með stelpu er hún þá lesbía eða straight?“ Dæs. Svo ekki sé nú minnst á: „Hvernig geta lesbíur eiginlega stundað samfarir?“

Það er hið ágæta ár 2015 og við erum enn í þessum skilgreiningarfasa, jafnvel -isma. Ástin og upplifun á eigin líkama er smættuð niður í hvernig inn-út virkar. Hvað fer inn, á hverjum og hvert fer það. Hommar tákna ennþá endaþarmsáhuga þegar gagnkynhneigðir stallar þeirra hafa tekið fram úr þeim áhuga samkvæmt formlegum rannsóknum og óformlegum leitarniðurstöðum klámsíðna á netinu. Lesbíur þurfa að nota eitthvað til að stinga inn, því leggöng verða að fá eitthvað inn, annars er það ekki kynlíf. Segir sig augljóslega sjálft. Svo allt hitt liðið, þetta fólk sem maður veit nú ekki hvað skuli kalla með öllum alltaf á fullu. Eða bara liðið sem þolir ekki prinsessur og bleika og bláa ísa, ég meina, það er bara dúlló. Best að halda sig bara heima í þessari viku því göturnar eru fullar af þessu óþægilegu liði.

Við ætlum nefnilega að troða þér í kassa. Þú skalt komast í minn kassa því minn heili rúmar ekki að búa til annan og nýjan kassa, nú eða það sem verst er í öllum heiminum fyrir flokkunarkerfi heilans, hafa þig í engum kassa. Bara svífandi um frjáls, svo næst þegar ég hitti þig þá þarf ég að vanda mig í samskiptum og hugsa hvað ég á að segja og hvernig ég á að vera þegar auðveldast er bara að líta undan og labba fram hjá. Og reyna að bægja frá mér hugsunum um hvernig þú stundar kynlíf og með hverjum.

Gott fólk, við erum að tala um fólk. Ekki ofan á eða undir. Ekki stórt typpi eða lítið eða búið til af læknum. Ekki hann eða hún eða frík. Við erum að tala um fólk. Alls konar fólk. Nú eru hinsegin dagar og við erum að fagna mannréttindum og kærleika, samkennd, tilfinningum og skilningi. Þetta snýst ekki um hvað þú ætlar að segja eða hvernig, þetta snýst ekki um þig. Ef þú ert óviss hvaða orð á að nota, spurðu þá. Ég vona að sem flestir mæti í Gleðigönguna á laugardaginn en fyrir alla hina 364 daga ársins þá vona ég að þú munir, þegar fordómarnir og spurningarnar öskra inni í heilanum á þér, að við erum að tala um fólk. Sýndu auðmýkt, skilning og einlægni og mundu að við erum öll fólk og við erum öll alls konar.








×