Erlent

Evrusvæðið veitir Grikklandi aukalán

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Grikkir hafa undanfarið ekki getað tekið út nema andvirði níu þúsund króna á dag.
Grikkir hafa undanfarið ekki getað tekið út nema andvirði níu þúsund króna á dag. vísir/epA
Fjármálaráðherrar ríkja evrusvæðisins samþykktu í gær að veita Grikkjum rúmlega þúsund milljarða króna aukalán til að halda ríkinu á floti á meðan unnið er að því að klára nýjan samning um neyðaraðstoð handa Grikkjum. Búist er við því að aðildarríki Evrópusambandsins verði búin að samþykkja lánið í dag.

Aukalánið mun gera Grikkjum kleift að standa við afborganir á lánum frá Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á mánudaginn.

Stjórnarandstöðuþingmenn á Grikklandi komu Alexis Tsipras forsætisráðherra til bjargar í gær þegar kosið var á þinginu um frumvörp sem sneru að innleiðingu samningsins nýja. Alls kusu 38 ríkisstjórnarþingmenn gegn frumvarpinu en með stuðningi stjórnarandstöðu komust frumvörpin í gegn. Með frumvörpunum voru 229 en 64 á móti.

Finnska þingið samþykkti samninginn í gær og þá mun þýska þingið kjósa um hann í dag.

Grískir fjölmiðlar greindu þar að auki frá því í gær að grískir bankar yrðu líkast til opnir aftur á mánudag. Þeir hafa nú verið lokaðir í nærri þrjár vikur. Grikkjum hefur síðustu vikur verið heimilt að taka um 60 evrur, 9.000 krónur, út úr hraðbönkum á dag. Ellilífeyrisþegar hafa fengið að taka út tvöfalda þá upphæð vikulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×