Handbolti

Þolinmæðisverk að brjóta niður lið Ísraels

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson leggur línurnar fyrir strákana.
Aron Kristjánsson leggur línurnar fyrir strákana. fréttablaðið/vilhelm
Ísland mætir Ísrael í afar mikilvægum leik í undankeppni EM 2016. Leikurinn fer fram ytra og hefst klukkan 16.45.

Þetta er næstsíðasti leikur strákanna okkar í riðlinum. Ísland (5 stig) er í harðri baráttu við Svartfjallaland (6 stig) og Serbíu (5 stig) um efstu tvö sæti riðilsins en síðarnefndu liðin mætast innbyrðis í kvöld.

Ísrael er enn stigalaust en Aron Kristjánsson segir að liðið sé erfitt heim að sækja. „Þeir eru mun ákafari í vörn og komast upp með meira. Serbía og Svartfjallaland lentu bæði í basli hér úti,“ segir Aron við Fréttablaðið. „Það er mikilvægt að halda einbeitingu og átta sig á því að það mun taka tíma að brjóta þá niður. Annars gæti þetta orðið erfitt.“

Það er ljóst að sigur í leiknum í dag mun ekki tryggja Íslandi sæti á EM í Póllandi. En sigur er algjörlega nauðsynlegur.

„Fyrir okkur er málið einfalt. Við ætlum okkur að vinna báða þessa leiki sem eftir eru,“ sagði Aron en Ísland mætir Svartfjallalandi í Laugardalshöllinni á sunnudag. „Við stefnum á fyrsta sæti riðilsins.“

Alexander Petersson gat ekki gefið kost á sér í leikinn vegna meiðsla og þá er Bjarki Már Gunnarsson tæpur eftir að hafa snúið sig á ökkla fyrir fáeinum dögum. Hann æfði þó í gær og ætti að geta spilað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×