Innlent

Engin krabbameinsskoðun gerð

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
María Davíðsdóttir
María Davíðsdóttir
María Davíðsdóttir greindist með krabbamein fyrir fimm árum. Hún fékk af því bata en vegna veikindanna þarf hún að fara í skoðun á hálfs árs fresti til að skima fyrir krabbameini. Nokkuð er um að veikindi af því tagi sem hrjáðu hana taki sig upp aftur og hver skoðun vekur því skiljanlega með henni kvíða. Nú kemst hún hins vegar ekki í þessa skoðun vegna verkfallsaðgerða BHM. „Það er útilokað að ég komist í sneiðmyndatöku vegna verkfallsaðgerðanna. Það vekur kvíða og spennu en nógur er kvíðinn fyrir hverja skoðun, tveimur vikum áður en ég þarf að mæta í skoðun er ég vanalega kvíðin en nú má segja að ég sé í öngum mínum.“ 



Hún segir enda miklu máli skipta að brugðist sé skjótt við ef krabbameinið tekur sig upp aftur. „Ég greindist með skætt krabbamein, hver mánuður gæti skipt máli upp á greiningu og meðferð og ég veit það eru margir í mínum sporum þessa dagana. Við fáum ekki góða úrlausn mála fyrr en verkfallið leysist. Enn meira er líklega andlegt álag sem nýgreindir finna fyrir, fólk sem veikist af krabbameini vill ekki bíða eftir meðferð eða að tafir verði á henni,“ bætir hún við. María er hjúkrunarfræðingur og gæti sjálf verið á leiðinni í verkfall. „Ástandið er skelfilegt og er að verða ólíðandi. Við erum hugsanlega að fara í verkfall nú í lok maí, ég má eiginlega ekki til þess hugsa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×