Innlent

Ábyrgðin alltaf Landspítalans

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segist kappkosta að öryggi sé tryggt.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segist kappkosta að öryggi sé tryggt.
„Að sjálfsögðu er öryggi okkar sjúklinga á okkar ábyrgð og eitthvað sem við kappkostum að sinna,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, um ummæli yfirlæknis krabbameinslækninga á Landspítalanum, Gunnars Bjarna Ragnarssonar, sem sagðist ekki geta tryggt að sjúklingar yrðu ekki fyrir skaða vegna verkfalls Bandalags háskólamanna á spítalanum.

Sjúklingar á Landspítalanum finna í sífellt meiri mæli fyrir áhrifum verkfallsaðgerða BHM. Rúmar þrjár vikur eru nú síðan ríflega fimm hundruð starfsmenn á spítalanum fóru í verkfall.

„Það er reynt að koma í veg fyrir það að lyfjameðferð rofni en það hefur gerst í nokkrum tilvikum,“ sagði Gunnar Bjarni og sagði ástæðuna þá að sjúklingar hefðu ekki komist í myndgreiningarrannsókn. Þá hefðu miklar tafir orðið víða á starfseminni, bið eftir meðferð á geisladeild væri til að mynda afar löng. Verkfallið nú sagði hann að auki hafa meiri áhrif á krabbameinssjúka en læknaverkfallið.

Páll sagði ábyrgð á öryggi sjúklinga sameiginlega. „Það er hins vegar sameiginlegt verkefni okkar og þeirra sem eru í verkfalli að tryggja að aðgerðir eins og verkföll raski öryggi okkar og þjónustu sem minnst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×