Skoðun

Ertu verktaki eða launþegi?

Vala Valtýsdóttir skrifar
Nú um þessar mundir þurfa einstaklingar að fara að huga að hinni árlegu skattframtalsgerð. Oft hafa fyrirtæki samið við einstaklinga um að þeir séu verktakar hjá viðkomandi en ekki launþegar. Hér þurfa menn að staldra við því að það er ekki á þeirra valdi að ákveða hver skattaleg staða þeirra er, þ.e. hvort þeir eru skattlagðir sem verktakar eða launþegar. Skattyfirvöld hafa ríkar heimildir til að meta starfssambandið og skattleggja eftir því hvort þau telja vera um að ræða.

Verulegur munur er á því hvort einhver teljist launþegi eða verktaki. Verktaki hefur með höndum sjálfstæða starfsemi. Hann hefur mikið frjálsræði í sínum störfum og ræður t.d. innan vissra marka hvenær hann vinnur verkið og hvort hann vinnur það einn eða með öðrum.

Alla jafna er frekar einfalt að kanna hvort einhver sé verktaki eða launþegi. Þau atriði sem benda til þess að frekar sé um að ræða launað starf en verktaka eru til dæmis; að viðkomandi beri engan kostnað af verkinu/starfseminni; starfsstöð hans er hjá verkkaupa sem skaffar honum þau tæki og tól sem hann þarf til að vinna verkið; hann vinnur fyrir einn eða fáa verkkaupa og fær greidda þóknun þegar hann tekur orlof og í veikindum. Hér skiptir ekki máli hvort einstaklingurinn fær greitt fyrir verkið beint eða í gegnum félag.

Ef einstaklingur hefur fengið greitt fyrir starf sitt sem verktaki en staða hans er í raun eins og um launþega sé að ræða þá geta skattyfirvöld endurákvarðað skatta viðkomandi. Þá má gera ráð fyrir að skattyfirvöld hafni framtöldum kostnaði og stofn til greiðslu skatta hækki sem því nemur. Ef viðkomandi „verktaki“ hefur verið skráður á virðisaukaskattsskrá og innheimt virðisaukaskatt má gera ráð fyrir að skattyfirvöld hafni öllum innskatti „verktakans“ þar sem ekki verður talið að hann hafi með höndum sjálfstæða starfsemi.

Auk þessa má gera ráð fyrir að skattyfirvöld taki upp skattskil verkkaupans þannig að innskatti verkkaupa af reikningum „verktaka“ verði hafnað. Jafnframt má ætla að skattyfirvöld leggi tryggingagjald á „laun“ verktakans. Auk þess bera verkkaupinn (launagreiðandinn) og verktakinn (launþeginn) sameiginlega ábyrgð á vangreiddri staðgreiðslu skatta.

Að telja rangt fram í þá veru sem hér hefur verið tæpt á getur haft verulegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir „verktakann“ og „verkkaupann“. En þar með er ekki öll sagan sögð. Samningssambandið getur líka valdið fjárhagslegu tjóni í öðrum tilvikum eins og t.d. ef verktakinn slasast við störf og hefur ekki sjálfur tryggt sig eins og almennt er skylt ef viðkomandi hefði verið launþegi verkkaupa.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×