Viðskipti erlent

Netflix greiddi alla skatta í Lúxemborg

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stærsti viðskiptamannahópur Netflix er í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Stærsti viðskiptamannahópur Netflix er í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Netflix greiddi enga fyrirtækjaskatta í Bretlandi á síðasta ári, þrátt fyrir að áskrifendur í landinu séu 4,5 milljónir. Þetta kemur fram á vef Guardian. Fyrirtækið rukkar hvern áskrifanda að lágmarki um 5,99 (um 120 krónur) fyrir áskriftina að þjónustunni.

Sunday Times telur að tekjur Netflix í Bretlandi hafi numið 200 milljónum punda (39 milljörðum króna) í Bretlandi á síðasta ári. Engar tekjur voru hins vegar bókfærðar í Bretlandi. Þetta er þó ekki talið brot á skattalögum.  

Nýjustu tölur fyrir Netflix International BV, sem staðsett var í Lúxemborg allt þar til í lok síðasta árs (en nú í Amsterdam), sýna að tekjurnar nema 415 milljónum punda (80 milljörðum króna) og hagnaðurinn er 11,3 milljónir (2 milljarðar króna). Stærstur hluti tekna er talinn koma frá breskum viðskiptavinum. Greiddur tekjuskattur í Lúxemborg var 573.396 pund (110 miljónir króna).

Forsvarsmenn Netflix segja að fyrirtækið sé að stækka og tapi á alþjóðlegri starfsemi. Talsmaður segir að breskt dótturfélag Netflix sé með 12 starfsmenn í vinnu og muni greiða fyrirtækjaskatta á þessu ári. Reglum sé fylgt í hvívetna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×