Innlent

Leit fram haldið af fullum þunga í fyrramálið

Kjartan Hreinn Njálsson og Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifa
Umfangsmikil leit að manni sem talið er að hafi fallið í Ölfusá í nótt hefur engan árangur borið. Um hundrað og tuttugu björgunarsveitarmenn og lögreglumenn hafa tekið þátt í leitinni. Formaður Björgunarfélags Árborgar segir aðstæður erfiðar við bakka Ölfusár en leitarmenn hafa notað dróna og leitarhunda við leitina í dag.

Leit hófst á þriðja tímanum í nótt en þó tóku um fjörutíu manns þátt í henni. Grunur leikur á að maðurinn hafi fallið í ánna en bíll hans fannst skammt frá Selfosskirkju.

Þegar birti til í morgun var aukinn þungi færður í leitina. Liðsstyrkur barst frá björgunarsveitunum á höfuðborgarsvæðinu og þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til.

Þrátt fyrir sæmileg veðurskilyrði eru aðstæður við Ölfusá erfiðar. Áin er ísilögð og aðstæður til siglinga erfiðar. Þannig hefur þyrla Landhelgisgæslunnar reynst mikil, sem og önnur minni flygildi en leitarmenn hafa notað dróna við leitina í dag.

Tryggvi Hjörtur Oddsson, formaður Björgunarfélags Árborgar, segir að leitarmenn nýti í raun allar bjargir sem hægt er að nýta. Til að átta sig á reki í þessari vatnsmestu á Ísland köstuðu leitarmenn brúðu í ánna sem þyrla Landhelgisgæslunnar fylgdi eftir.

„Þó veðrið sé okkur hliðhollt í dag þá er Ölfusáin köld og mikill ís í henni sem gerir aðstæður til leitar mjög erfiðar. Við settum dúkku út þar sem við teljum að maðurinn hafi farið út í ánna og létum hana reka niður og fylgdumst með henni þá til að átta okkur á því bæði hvert hana myndi reka og hraðanum á henni,“ segir Tryggvi.

Lögregla og leitarmenn funduðu síðdegis í dag um framhaldið. Dregið verður úr leitinni í kvöld og áin vöktuð í nótt. Gert er ráð fyrir að fullur þungi verður settur í leitina í fyrramálið.


Tengdar fréttir

Aukinn þungi færður í leitina

Aukinn þungi hefur verið færður í leit að manni sem talið er að hafi fallið í Ölfusá á Selfossi í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×