Innlent

Eins og í hryllingsmynd í Eyjum: „Ég man eftir óveðrinu 1991 en þetta er af allt öðru kaliberi“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgunarsveitamenn höfðu í nógu að snúast í óveðrinu í febrúar 1991.
Björgunarsveitamenn höfðu í nógu að snúast í óveðrinu í febrúar 1991. Vísir/GVA
Ragna Birgisdóttir, íbúi við Smáragötu ofarlega á Heimaey, segist eiga erfitt með að finna réttu orðin til að lýsa veðrinu sem gangi yfir eyjuna.

„Ég man eftir óveðrinu 1991 en þetta er af allt öðru kaliberi.“

Sjá einnig:Svipmyndir frá óveðrinu 1991

Búið er að rýma nokkur hús í nágrenninu en enn sem komið er hafa Ragna og fjölskylda ekki orðið fyrir tjóni. Þó er byrjað að leka og þau farin að finna til fötur. Fyrr í kvöld urðu þau vitni að því þegar björgunarsveitarmenn reyndu að fergja þakplötu sem hafði fokið af húsi í götunni.

Stjörnutjúllað veður 

„Það er stjörnutjúllað veður hérna og eiginlega bara eins og í hryllingsmynd. Nú hefur ofankoma bæst í þetta og aðstæður eru mjög erfiðar,“ segir Ragna. Björgunarsveitarmenn og lögregla hefur reynt að athafna sig í veðrinu og eru að sögn Rögnu úti um allan bæ að reyna að aðstoða. 

„Það treystir sér enginn hingað uppeftir,“ segir Ragna. „Fleiri þök eru að fjúka og það er bara neyðarástand.“

Hún segir fjölskyldu sína ekki á förum enda ekkert að fara. Til að komast í bílinn þurfi að fara út og inn í bílskúr. Ljóst er að bílskúrshurðin myndi fara ef reynt yrði að fara inn í bílskúrinn.

„Hún færi bara fjandans til.“

Djöfulgangurinn byrjar með suðvestanáttinni

Smáragata er ofarlega í Vestmannaeyjum þar sem þakplata fauk af húsi sem stendur afar tæpt. 

„Húsið fær eiginlega allan strenginn á milli Eldfells og Helgarfells,“ segir Ragna sem finnur að vindáttin er að breytast. Nú sé að skella á suðvestan átt sem sé sú versta fyrir Eyjamenn. 

„Þá byrjar djöfulgangurinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×