Menning

Það þarf alltaf að standa með tjáningarfrelsinu – alltaf

Magnús skrifar
Saga Garðarsdóttir og Halldór Laxness Halldórsson, þekktari sem Dóri DNA, frumsýna Þetta er grín, án djóks í Hofi í kvöld.
Saga Garðarsdóttir og Halldór Laxness Halldórsson, þekktari sem Dóri DNA, frumsýna Þetta er grín, án djóks í Hofi í kvöld.
Í kvöld frumsýnir Menningarfélag Akureyrar glænýtt íslenskt verk í Hofi í sviðsetningu Leikfélags Akureyrar og Menningarhússins Hofs. Verkið ber titilinn Þetta er grín, án djóks og er eftir þau Halldór Laxness Halldórsson (Dóra DNA) og Sögu Garðarsdóttur en þau fara jafnframt með tvö aðalhlutverkin en auk þeirra fer Benedikt Karl Gröndal með hlutverk í sýningunni.

Í verkinu segir frá lífi grínistanna og kærustuparsins Sögu og Dóra sem samnefndir grínistar leika og þau segja að það hafi svo sem önnur nöfn komið til greina á persónurnar enda slíkt samlífi grínara ekki óþekkt með öllu. „En við ákváðum að vera bara með okkar eigin nöfn á þessu enda okkar persónur sem liggja að baki að stóru leyti,“ segir Halldór og bætir við að þetta sé nú eiginlega fjölskyldusýning þar sem Snorri Helgason, kærasti Sögu, sjái um tónlistina og eiginkona hans, Magnea Guðmundsdóttir, um leikmynd og búninga.

„En upphafið má rekja til þess þegar við Saga vorum saman í Listaháskólanum. Þá var hún að læra leiklist og ég að verða sviðshöfundur. Þannig að okkur hefur lengi langað til þess að vinna saman. En síðan fékk Saga þessa hugmynd að gera verk um tvo uppistandara sem búa saman, eru saman og eru alltaf að bera efni hvort undir annað. Þau eru í endalausu basli með hvað allt er grín og það á kostnað alvörunnar og einlægninnar. En síðan þegar við settumst niður og fórum að skrifa þá var ennþá mikið verið að tala um Charlie Hebdo og mál sem snerust um það að einhver sagði óviðeigandi brandara þannig að á endanum þá sátum við uppi með verk sem fjallar líka um tjáningarfrelsið og hvar línan liggur.“

Línan fræga

Saga segir að þessi margumrædda lína liggi í raun víða og sé á stöðugu flökti og að þau finni þetta vel eftir að vera búin að flytja verkið fyrir áhorfendur á allra síðustu æfingum. „Stundum er hreinlega dauðaþögn á ákveðnum stöðum og svo getur verið glymjandi hlátur á sama stað hjá næsta holli áhorfenda. En það er líka rosalega gaman þegar lagt er upp með að láta reyna á mörkin og leita að línunni þegar við finnum þögnina og þá liggur línan þar það kvöldið.“

Þau Saga og Halldór eru á því að það sé ekkert eitt ákveðið sem setji þessi mörk á meðal áhorfenda hverju sinni. Þetta sé engan veginn spurning um aldur eða annað slíkt. Halldór segir að það megi vel sjá að það er mikið að gerast á meðal áhorfenda á þessum augnablikum. „Fólk er að horfa á annað fólk og sjá hvort það er að hlæja og leita að mörkunum, línunni, á meðal annarra áhorfenda. Þetta er stóra spurningin: Er í lagi að hlæja?“ Og eins og Saga bendir á þá varpa þau spurningunni áfram til áhorfenda. „Við spyrjum líka t.d. má ég segja þetta? Má Dóri gera grín að konum? Er það karlremba? En er það í lagi fyrir mig sem konu að gera sama grín?“

Það gengur á ýmsu í sambúð og lífi uppistandaranna Sögu og Dóra í Hofi.
Ekkert að óttast

Leiksýning á borð við þessa er sérstök að því leyti að innan hennar er að finna bæði uppistand sem og hefðbundið leikhús. „Við erum að segja sögu frá a til ö en leikum svo kannski meira út í salinn en í hefðbundnu leikhúsi,“ segir Halldór en Saga er á því að þetta sé styrkur uppistandsins. „Maður er í svo beinum tengslum við áhorfendur, horfir beint í augun á þeim. Þannig að það er enginn fjórði veggur í uppistandi og við vildum nýta þá orku í sýninguna.“

Halldór bætir við að fólk þurfi ekki að vera hrætt við að setjast á fremsta bekk. „Við erum ekkert að fara að hjóla í áhorfendur. Maður verður stundum var við þennan ótta. Við höfum verið niðri í Þjóðleikhúskjallara með troðfullt hús á uppistandi og það er verið að leita úti um allan sal að sætum fyrir áhorfendur með vasaljósum en fyrsti bekkurinn stendur auður.“

Vinur og vopn

Saga segir að þau komi víða við í sýningunni. „Við erum að fjalla um fólk sem er áberandi í samfélaginu og það sem er efst á baugi. En síðan er það líka þannig að við þurfum ekkert endilega að nefna einstaklingana. Fólk tengir.“ Halldór tekur undir þetta. „Þetta er líka manns helsti ótti sem grínista að fá þessa spurningu: Finnst þér þetta fyndið? Eins og maður sé úrkynjaður vegna þess að maður gerði grín að einhverju. En mikið af sýningunni fjallar einmitt um þetta blessaða tjáningarfrelsi og hvað þú þarft að standa með því alltaf. Ekki bara stundum.“

Halldóri og Sögu er það hugleikið hversu stóran þátt Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri á í sýningunni. Halldór segir að hlutur hans liggi líka í dramatúrgíu handritsins. „Hann hefur opnað þetta allt með sínum göldrum. Jón Páll hefur meira að segja líka hjálpað okkur til þess að gera óbærilegu senurnar óbærilegar. Jón Páll er fyndinn náungi með góðan húmor sem skilur ákaflega vel að þetta er verk um húmor og hvernig hann getur verið hlýr og kaldur og hvenær við leitum til hans og hvenær honum er ofaukið og hversu öflugt vopn hann getur verið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×