Innlent

Staðgöngumóðir má ekki vera skyld barninu í beinan legg

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á meðal skilyrða sem staðgöngumóðir þarf að uppfylla er að hafa náð 25 ára aldri og vera ekki eldri en 39 ára.
Á meðal skilyrða sem staðgöngumóðir þarf að uppfylla er að hafa náð 25 ára aldri og vera ekki eldri en 39 ára. vísir/getty
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í frumvarpinu er kveðið á um nokkuð mörg skilyrði sem bæði staðgöngumóðir, og maki hennar ef við á, þurfa að uppfylla, auk skilyrða sem væntanlegir foreldrar þurfa að uppfylla.

Á meðal skilyrða sem staðgöngumóðir þarf að uppfylla er að hafa náð 25 ára aldri og vera ekki eldri en 39 ára. Þá verður hún að hafa eignast að minnsta kosti eitt barn eftir eðlilega meðgöngu og fæðingu.

Samkvæmt frumvarpinu verða að hafa liðið tvö ár að lágmarki frá fæðingu barns staðgöngumóðurinnar og þá má síðasta meðganga hennar ekki hafa endað með fósturmissi eftir fyrst þriðjung eða fæðingu andvana barns. Auk þess verða að hafa liðið að lágmarki tvö ár frá andláti barns hafi staðgöngumóðir eða maki hennar misst barn.

Væntanlegir foreldrar ekki eldri en 45 ára

Þá má hvorki staðgöngumóðirin, né maki hennar, vera systir, bróðir eða skyld í beinan legg því væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumu, en skylda er samkvæmt frumvarpinu að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru væntanlegra foreldra.

Væntanlegir foreldrar skulu hafa náð 25 ára aldri en mega ekki vera eldri en 45 ára. Þeir skulu vera hjón eða einstaklingar í sambúð sem er skráð í þjóðskrá og eiga samkvæmt frumvarpinu að standa saman að umsókn um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Þá skulu foreldrarnir ekki hafa verið skemur í samfelldri sambúð en þrjú ár þegar umsókn er lögð fram. Hjúskapur eða skráð sambúð þar af skal hafa varað í eitt ár hið minnsta.

Í frumvarpinu segir að einhleypir geti „fengið leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni ef sérstaklega stendur á og ótvírætt þykir að hagsmunir barns verði tryggðir og að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara.“

Þriggja manna nefnd mun veita leyfi til staðgöngumæðrunar

Væntanlegir foreldrar mega þar að auki hvorki eiga barn undir tveggja ára aldri né bera ábyrgð á uppeldi svo ungs barns. Þá er sett það skilyrði að „væntanlegir foreldrar geti af læknisfræðilegum ástæðum ekki tekist á við það álag sem fylgir meðgöngu og fæðingu barns eða líffræðilegar ástæður útiloki meðgöngu. Miða skal við alvarleg, skaðleg áhrif meðgöngu og fæðingar með hliðsjón af almennum læknisfræðilegum og fæðingarfræðilegum viðmiðum.“

Samkvæmt frumvarpinu mun ráðherra skipa þriggja manna nefnd sem veita mun leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Nefndin verður skipuð til fjögurra ára í senn og í henni eiga að sitja einn lögfræðingur, einn læknir auk sálfræðings eða félagsráðgjafa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×