Enski boltinn

Sterling hrósar Liverpool: Meðhöndluðu félagsskiptin af fagmennsku

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Manchester City greiddi metfé fyrir Sterling í sumar.
Manchester City greiddi metfé fyrir Sterling í sumar. Vísir/Getty
Raheem Sterling, leikmaður enska landsliðsins og Manchester City í knattspyrnu, segir að það hafi ekkert verið til í sögunum um ósætti milli hans og Liverpool í sumar áður en félagsskipti hans til Manchester City gengu í gegn.

Sterling sem hafði leikið með Liverpool í fjögur ár þrátt fyrir ungan aldur gekk til liðs við Manchester City í sumar fyrir 49 milljónir punda.

Voru stuðningsmenn Liverpool ósáttir að sjá einn efnilegasta leikmann liðsins krefjast þess að fara frá félaginu til andstæðings í ensku úrvalsdeildinni.

Birtust reglulega skrautlegar fréttir í enskum miðlum þar sem greint var frá því að Sterling hefði farið í verkfall og brennt allar brýr að baki sér hjá félaginu.

Hann segir að allir raddir um slíkt hafi komið utan frá, þ.e. engin frá félaginu sjálfu.

„Þegar allar þessar sögur voru í gangi hjá félaginu þá höndluðu allir hjá Liverpool málið af mikilli fagmennsku. Ég talaði við knattspyrnustjórann á hverjum degi og alla leikmennina. Allir fyrir utan félagið töluðu um þetta sem eitthvað slæmt en þetta var ekki jafn slæmt og fjölmiðlar töluðu um.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×