Erlent

Ætla að stöðva tölvuárásir

Samúel Karl Ólason skrifar
Xi Jingping og Barack Obama.
Xi Jingping og Barack Obama. Vísir/AFP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði Xi Jingping, forseta Kína, að tölvuárásir Kínverja gegn stofnunum og fyrirtækjum í Bandaríkjunum verði að stöðva. Leiðtogarnir komust að samkomulagi um að hvorki Bandaríkin né Kína framkvæmdi né styðji við tölvuárásir sem ætlað er að komast yfir efnahagslegar upplýsingar og upplýsingar fyrirtækja.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Obama og JingPing eftir fund þeirra í Hvíta húsinu í dag.

Obama sagðist hafa lýst yfir áhyggjum vegna aukins fjölda slíkra árása sem rekja mætti til Kína. „Ég kom því til skila að það þyrfti að stöðva þessar árásir,“ sagði Obama samkvæmt Sky News.

Samkvæmt AP fréttaveitunni ræddu forsetarnir um margvísleg efnahagstengd mál, en Obama nefndi einnig að allar þjóðir ættu að hafa óheftan aðgang um Suður-Kínahaf.

Þar að auki ræddu forsetarnir um að mörgum kirkjum hefði verið lokað í Kína að undanförnu og um stuðning Kína við kjarnorkusamkomulagið við Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×