Innlent

Ásdís Halla opnar sig um bróður sinn sprautufíkillinn og síbrotamanninn

Jakob Bjarnar skrifar
Ásdís Halla skrifar athyglisverða grein á Facebook þar sem hún minnist síbrotamannsins bróður síns.
Ásdís Halla skrifar athyglisverða grein á Facebook þar sem hún minnist síbrotamannsins bróður síns. vísir/pjetur
Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ, skrifar langa og hjartnæma frásögn á Facebook þar sem hún minnist bróður síns. Hún greinir frá því að hann hafi verið vandræðaunglingur, síðar dópisti, síbrotamaður, fangi og þá dauðvona sprautufíkill.

Frásögn Ásdísar Höllu hefur vakið mikla athygli. Hún sýnir aðra hlið á bróður sínum, sem er sú sem sneri að henni sem ljúfi bróðirinn, fyrirmyndin og lengi vel hennar nánasti vinur: „Ég naut þeirra stunda sem við áttum saman og ekki síst alls þess tíma sem Sonny gaf sér til að kenna mér að lesa, tefla og spila. Fáar stelpur áttu stóra bræður sem nenntu að vera jafn mikið með þeim en ég áttaði mig ekki á því þá að fyrir kvíðinn strák, sem var lítill í sér og dálítið seinþroska, gat verið auðveldara að loka sig af með litlu systur en að drífa sig út og verja tíma með jafnöldrum.“

Öskur á aðstoð

En Ásdís Halla greinir jafnframt frá dekkri hlið bróður síns sem gat snúið að henni þrátt fyrir gott samband þeirra systkina: „... vissulega komu fyrir tímabil þar sem fíkillinn, bróðir minn, var svo illa haldinn af neyslu að hann virtist jafnvel glíma við ofsóknarbrjálæði sem braust stundum fram með svo óhugnanlegum hætti að ég varð hrædd í návist hans.“

Ástæða skrifanna segir Ásdís Halla vera þá að „þarna úti er fjöldinn allur af ungum krökkum í áþekkum sporum. Þau glíma við vanlíðan sem birtist í mótþróa, sem er stundum eini tjáningarmátinn sem þau geta gripið til. Uppreisnin er öskur á aðstoð – kall á hjálp.“

Ásdís Halla birti þessa mynd með færslunni, af sér, bróður sínum og móður.
Frásögn Ásdísar Höllu í heild sinni

Hin eftirtektarverða frásögn Ásdísar Höllu er hér á eftir í heild sinni.

Þessi mynd er í miklu uppáhaldi hjá mér en þarna erum við Sonny bróðir með mömmu heima í Ólafsvík fyrir langalangalöngu. Dagurinn í dag er dagurinn hans og þá hellist söknuðurinn yfir en líka þakklætið fyrir samverustundirnar.

Sú hlið Sonna sem sneri að mörgum var vandræðaunglingurinn sem varð síðar dópisti, síbrotamaður, fangi og dauðvona sprautufíkill. Sú hlið sem sneri að mér var ljúfi bróðirinn, fyrirmyndin og lengi vel nánasti vinur minn. Ég naut þeirra stunda sem við áttum saman og ekki síst alls þess tíma sem Sonny gaf sér til að kenna mér að lesa, tefla og spila. Fáar stelpur áttu stóra bræður sem nenntu að vera jafn mikið með þeim en ég áttaði mig ekki á því þá að fyrir kvíðinn strák, sem var lítill í sér og dálítið seinþroska, gat verið auðveldara að loka sig af með litlu systur en að drífa sig út og verja tíma með jafnöldrum.

Samtöl okkar voru einlæg, notaleg og heiðarleg óháð aðstæðum. Engu skipti hvort spjallið ætti sér stað þegar við vorum að spila manna við mömmu við eldhúsborðið heima eða síðar í fangaklefanum á Litla Hrauni þegar við borðuðum saman snakk með Vogaídýfu og fórum yfir framtíðardrauma. Það væri þó hvorki satt né rétt að láta eins og sambandið hefði alltaf verið eins og glansmynd því vissulega komu fyrir tímabil þar sem fíkillinn, bróðir minn, var svo illa haldinn af neyslu að hann virtist jafnvel glíma við ofsóknarbrjálæði sem braust stundum fram með svo óhugnanlegum hætti að ég varð hrædd í návist hans. En ekkert af því varpar skugga á fallega minningu um góðan strák.

Ég er sannfærð um það að fyrstu skref Sonna í ruglinu voru flótti frá sjúklegum og lamandi kvíða, tilfinningunum sem brutust um í honum og hann sjálfur var ekki einu sinni fær um að greina, skilja eða tjá sig um á þeim tíma en maður áttaði sig betur á þegar frá leið. Grasið var grænna í neyslunni og það ásamt læknadópinu, sem í fyrstu virtist vera þægileg lausn hans á vanlíðan, stigmagnaðist hratt yfir í sterkari efni. Til varð skelfilegur vítahringur sem gat bara endað á einn veg.

Sonny fór alltof snemma og óbærilegur söknuðurinn, eftirsjáin og sjálfsásökunin bankar reglulega upp á. Löngunin til að verja afmælisdeginum með honum, heilbrigðum og hamingjusömum, er sterk en því miður fær bróðir minn ekki annað tækifæri. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þessar línur er hins vegar sú að þarna úti er fjöldinn allur af ungum krökkum í áþekkum sporum. Þau glíma við vanlíðan sem birtist í mótþróa, sem er stundum eini tjáningarmátinn sem þau geta gripið til. Uppreisnin er öskur á aðstoð – kall á hjálp. En í staðinn fyrir að svarað sé með umhyggju er fordómunum ausið yfir þau. Slúðrið er ekki til sparað og á köflum má jafnvel greina tilhlökkun hjá gulu pressunni sem fær áhugavert efni í fyrirsagnir sem selja. Þessum krökkum er skellt svo harkalega á hliðarlínu samfélagsins að þau telja sig ekki skulda neinum neitt. Einangrunin og uppreisnin leiðir til reiði, átaka og sorgar sem bitnar ekki bara á þeim sjálfum heldur fjölda fórnarlamba sem dragast inn í atburðarásina; mæður, feður, systur, bræður, ömmur, afar, dætur, synir, vinkonur, vinir og jafnvel ótengdir vegfarendur.

Í uppeldinu og í stofnunum samfélagsins eru reglur nauðsynlegar og agi mikilvægur en ég er líka nokkuð sannfærð um að margra barna og unglinga getur beðið betra líf ef grafið er dýpra, alla leið að rót vandans, unnið með tilfinningar og byggðar upp aðstæður þar sem kærleikurinn er leiðarljósið. Það hvarflar ekki að mér að segja að það sé einfalt mál að svara skapstyggð, hótunum og jafnvel ofbeldi með ást og umhyggju. Og allra erfiðast getur það verið fyrir þá sem næst standa, eins og foreldra, sem eru búnir á því þegar verst lætur. Þess vegna er svo mikilvægt að samfélagið umvefji þá einstaklinga sem eiga erfitt uppdráttar og ég er nokkuð viss um að flest þekkjum við einhvern sem hefði gott af vænum skammti af jákvæðri athygli, tíma og stuðningi. Ekki satt? Ég er þó ekki svo veruleikafirrt að ég haldi það að eitt faðmlag breyti öllu á svipstundu eða lækni fíknina, en ég trúi því einlæglega að því fyrr sem unnið er með vanlíðan og kvíða barna og unglinga því betra - því ekki þarf að líða langur tími þar til það er of seint að ná til þeirra. 

Kæru vinir, ást og friður í tilefni dagsins.

...

Athugasemd: Í upphaflegu útgáfu þessarar fréttar var bróður Ásdísar Höllu ruglað saman við annan mann sem hefur komist í kast við lögin og átt við vímuefnavanda að stríða. Þetta hefur nú verið lagfært, og beðist er velvirðingar á mistökunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×