Erlent

Reikna með fjölmennum mótmælum í Aþenu í kvöld

Atli Ísleifsson skrifar
Nokkur fjöldi mótmælenda er þegar á staðnum og er viðbúnaður lögreglu mikill.
Nokkur fjöldi mótmælenda er þegar á staðnum og er viðbúnaður lögreglu mikill. Vísir/AFP
Lögregla í Grikklandi býr sig undir fjölmenn mótmæli fyrir framan þinghúsið í Aþenu í kvöld. Nokkur fjöldi mótmælenda er þegar á staðnum og er viðbúnaður lögreglu mikill.

Grískur þingheimur mun greiða atkvæði um frumvörpin fjögur í kvöld, en þau eru forsenda þess að frekari neyðarlán berist.

Verkföll opinberra starfsmanna hafa lamað höfuðborgina í dag, þar sem meðal annars starfsmenn almenningssamgangna, lyfjafræðingar og læknar hafa lagt niður störf.

Mótmæli eru boðuð um hálf átta í kvöld að staðartíma, eða hálf fimm að íslenskum tíma, fyrir framan þinghúsið í Aþenu.

Hefur ekki trú á samkomulaginu

Alexis Tsipras forsætisráðherra vinnur nú hörðum höndum að því að tryggja stuðning við frumvörpin sem miða meðal annars að því að hækka eftirlaunaaldur, hækka virðisaukaskatt og að tryggja sjálfstæði hagstofu landsins.

Tsipras hefur sjálfur sagt að hann hafi ekki trú á samkomulaginu sem náðist á mánudagsmorguninn í Brussel og hafa fjölmargir stjórnarþingmenn sagt að þeir ætli ekki að greiða atkvæði með frumvörpunum. Tsipras þarf því mögulega að treysta á stuðning stjórnarandstöðuþingmanna.

Fastlega er búist við að frumvörpin verði samþykkt, en þingflokkar þriggja stjórnarandstöðuflokka hafa sagst ætla að greiða atkvæði með frumvörpunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×