Fótbolti

Landsliðsþjálfari Ítalíu mögulega ákærður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Antonio Conte er í dag landsliðsþjálfari Ítalíu.
Antonio Conte er í dag landsliðsþjálfari Ítalíu. Vísir/Getty
Svo gæti farið að Antonio Conte, landsliðsþjálfari Ítalíu, verður kærður fyrir þátt sinn í meintri hagræðingu úrslita leikja þar í landi árið 2011.

Conte var þá knattspyrnustjóri Siena og hefur þegar tekið út refsingu knattspyrnuyfirvalda á Ítalíu fyrir að tilkynna ekki hagræðingu úrslita tveggja leikja tímabilið 2010-11. Hann neitaði þó ávallt sök.

Nú gæti mál hans endað fyrir almennum dómstólum en saksóknari hefur farið fram á að Conte verði ákærður fyrir sinn þátt. Næsta skref er að fara með málið fyrir dómara sem tekur ákvörðun um hvort að ákæra verði gefin út.

Eftir tímabilið tók Conte við Juventus og gerði félagið að Ítalíumeistara þrjú ár í röð. Hann var svo ráðinn landsliðsþjálfari Ítalíu í fyrra.

Rannsóknin náði yfir fjölda leikja í B- og C-deildum Ítalíu tímabilið 2010-11 sem og ítölsku bikarkeppninni. Conte var dæmdur í tíu mánaða bann árið 2012 en það var síðar stytt í fjóra mánuði eftir að hann áfrýjaði.

Meira en 50 leikmönnum var refsað vegna málsins og margir dæmdir í allt að fimm ára keppnisbann. Þar að auki voru stig dregin af nokkrum félögum, þeirra á meðal Atalanta og Siena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×