Innlent

Boðað til mótmæla 17. júní: "Stjórnvöld hafa vanrækt skyldur sínar“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli á miðvikudag, þjóðhátíðardag Íslendinga, vegna ákvörðunar Alþingis um að setja lög á verkföll Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Bandalags háskólamanna. Hátt í þrjú þúsund hafa boðað komu sína. Yfirskrift mótmælanna er: „Ríkisstjórnina burt - Vér mótmælum öll“

Efnt var til mótmælanna á Facebook í gær. Þar segir að stjórnvöld hafi vanrækt skyldur sínar og því þurfi að senda þeim sterk skilaboð. Ríkisstjórnin starfi ekki í umboði fólksins í landinu

„Ríkisstjórnin hefur tekið verkfallsréttinn af launafólki og gert alvarlega aðför að heilbrigðiskerfinu. Þau lækka skatta og gjöld á útgerðina á meðan þau fullyrða að ekki séu til peningar í túlkasjóð heyrnarlausra. Ríkisstjórnin hefur gengið bak orða sinna margoft og svikið hvert kosningaloforðið á fætur öðru. Stjórnvöld hafa vanrækt skyldur sínar gagnvart þeim sem minna mega sín, fátækum, heimilislausum og öldruðum. Lýðræði er ekki aðeins á fjögurra ára fresti, ríkisstjórnin starfar ekki í umboði fólksins í landinu,“ segir á síðu viðburðarins.

Mótmælin hefjast klukkan ellefu á miðvikudag og er fólk hvatt til að taka með sér skilti og áhöld. Viðburðinn og frekari upplýsingar má nálgast hér.

Taka skal fram að hvorki BHM né FÍH standa fyrir mótmælunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×