Innlent

600 manns þáðu mataraðstoð: „Aldrei séð svona sprengju áður“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Löng biðröð myndaðist um klukkan tólf í dag, en Mæðrastyrksnefnd opnar klukkan þrettán.
Löng biðröð myndaðist um klukkan tólf í dag, en Mæðrastyrksnefnd opnar klukkan þrettán. vísir/bergur þorri benjamínsson
Sjaldan, ef nokkurn tímann, hafa eins margir fengið matarúthlutun frá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og í dag, að sögn Aðalheiðar Frantzdóttur, framkvæmdastjóra nefndarinnar. Rúmlega sex hundruð manns þáðu mataraðstoðina.

Löng biðröð myndaðist fyrir utan húsnæði Mæðrastyrksnefndar rétt eftir klukkan tólf í dag og náði hún langt út á götu fram eftir degi. Aðalheiður segir að fleiri komi eftir því sem líður á mánuðinn en átti þó aldrei von á svo miklum fjölda fólks.

„Ég hef aldrei séð svona sprengju áður og veit eiginlega ekki hvað er að ske eða hvað það er sem veldur. Við höfum séð mánaðarlega aukningu frá áramótum og héldum að þetta væri að detta niður en það er bara heldur betur ekki. Í lok mánaðar erum við að fá til okkar svona um 400 manns,“ segir Aðalheiður í samtali við Vísi.

Hún segir úthlutunina hafa gengið afar vel fyrir sig. Fólk hafi verið einstaklega tillitssamt og þolinmótt þrátt fyrir langa bið. Þá hafi verið nóg til fyrir alla og því engum vísað frá. „Það var mikið af nýju fólki en líka þeir sem hafa komið áður. Þetta var allt mjög þægilegt fólk og kurteist og allt gekk mjög vel, enda gott veður,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×