Innlent

„Þetta er pínlegt mál frá A - Ö“

Birgir Olgeirsson skrifar
Skátar taka þátt í hátíðarhöldunum á 17. júní síðastliðnum.
Skátar taka þátt í hátíðarhöldunum á 17. júní síðastliðnum. Vísir/Daníel
„Það urðu mistök af okkar hálfu,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, en Skátarnir sendu óvart reikning á fjölda fyrirtækja sem var merktur sem styrkur. Hreyfingin sendir árlega út valgreiðsluseðil á valin fyrirtæki en í ár fór hann út sem reikningur.

„Það voru gerð mistök hjá okkur þegar við vorum að færa. Þetta fór óvart sem reikningur en ekki valgreiðslukrafa. Við höfum fellt þetta niður þegar fólk hringir og beðist afsökunar á þessu. Það urðu mistök af okkar hálfu. Það eru engin vextir á þessu eða neitt og við höfum fellt þetta niður þegar ábendingar berast,“ segir Hermann en Skátarnir er með lista yfir fyrirtæki sem fá valgreiðsluseðil árlega og fóru þessir reikningar því víða.

„Þetta er pínlegt mál frá A - Ö.“

Spurður hvernig starfið hjá Skátunum lítur út í sumar svarar Hermann því að það verði ansi blómlegt.

Á hann von á því að skátahreyfingin starfræki 10 útilífsskóla í sumar og þá er nánast uppbókað í sumarbúðir skáta á Úlfljótsvatni. Þá verður einnig haldið stórt skátamót og þá ráðgera Skátarnir að senda 80 skáta á 36 þúsund manna Heimsmót Skáta í Japan. Þátttakendur koma frá 160 þjóðlöndum og munu búa saman í tíu daga.

„Þetta er mjög skemmtileg áskorun, það verður 35 stiga hiti og 90 prósenta raki. Þetta verður geggjað.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×