Handbolti

Strákarnir hans Dags unnu Spánverja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson fagnar hér með sínum mönnum í kvöld.
Dagur Sigurðsson fagnar hér með sínum mönnum í kvöld. Vísir/Getty
Þýska handboltalandsliðið er áfram með fullt hús í undankeppni EM 2016 eftir eins marks sigur á Spánverjum í Mannheim í kvöld.

Þýskaland vann leikinn 29-28 eftir hafa verið 17-15 yfir í hálfleik og með tveggja marka forystu stóran hluta af seinni hálfleik þar sem spænska liðið komst aldrei yfir.

Línumaðurinn Patrick Wiencek skoraði sigurmarkið einni og hálfu mínútu fyrir leikslok og þýska vörnin hélt síðan út og hleypti ekki skoti á mark í lokasókn spænska liðsins.

Uwe Gensheimer bar markahæstur í þýska liðinu með átta mörk úr níu skotum en Niclas Pieczkowski skoraði sex mörk úr sex skotum. Valero Rivera skoraði tíu mörk fyrir Spánverja en hann nýtti öll skotin sín í leiknum.

Bæði liðin voru búin að vinna tvo fyrstu leiki sína í riðlinum en þau mætast síðan aftur um helgina á Spáni. Austurríki vann Finnland í hinum leik riðilsins fyrr í dag.

Dagur Sigurðsson þjálfar þýska landsliðið og hann fagnaði vel sínum mönnum í leikslok enda mikilvægur sigur í baráttunni um sæti í lokakeppninni í Póllandi í byrjun næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×