Innlent

Fórnarlamb eineltis: Íhugaði sjálfsmorð allt frá níu ára aldri

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gyða Dröfn var stóran hluta af sinni skólagöngu í Laugarnesskóla.
Gyða Dröfn var stóran hluta af sinni skólagöngu í Laugarnesskóla.
„Líf mitt byrjaði bara eins og hjá flestum öðrum en ég var mjög ofvirkur og hvatvís krakki og ef ég færi í greiningu í dag myndi ég pottþétt mælast á einhverfurófinu,“ segir Gyða Dröfn Hannesdóttir, 33 ára kona, sem upplifði mikið einelti í æsku, einelti sem átti eftir að hafa afdrífaríkar afleiðingar.

Hún byrjaði mjög ung að mála sig út í horn þar sem hún upplifði sig öðruvísi.

„Ofan á allt var ég rauðhærð og feit. Ég var líka mjög viðkvæm og þráði ekkert heitara en að fá samþykki annarra krakka.“

Skólaganga Gyðu hófst í Ísaksskóla en þegar hún var átta ára gömul fluttu foreldrar hennar í Laugarneshverfið og gekk hún því í Laugarnesskóla. Þar hófst eineltið.

„Þetta fyrsta ár í Laugarnesskóla mun ég aldrei gleyma, ég mun aldrei gleyma því hversu illa mér leið þarna og hvað krakkarnir voru vondir við,“ segir Gyða sem bætir því við að hún hafi átt fáa vini á þessum tíma. Gyða segir að kennarinn hennar hafi einnig komið illa fram við sig.

Faldi sig inni á klósetti

„Skórnir mínir hurfu, krakkarnir stríddu mér af því að ég var feit og ég var kölluð allskonar nöfnum. Í dag hef ég fengið greiningu um lesblindu og ADHD en það var ekki þekkt á þeim tíma. Í fjórða bekk kunni ég ekki ennþá að skrifa nafnið mitt og þá kallaði kennarinn minn mig heimska fyrir framan krakkana í bekknum. Ég þorði aldrei út í frímínútur og faldi mig oftast inni á klósetti eða einhverstaðar þar sem ég lenti ekki í áreiti.“



Hún segir að veturnir hafi verið verstir.

„Þá fékk maður ítrekað snjóbolta í andlitið eða þeim var grýtt í mann þannig að maður varð allur blár og marinn, svo var verið að kaffæra manni í snjónum og troða snjó inn á mann. Ég man eftir því að mér leið alltaf eins og ég væri veik en í dag skil ég að þetta var einfaldlega kvíði. Ég vildi ekki vera í skólanum og nánast daglega reyndi ég að telja mömmu eða pabba trú um það að ég væri veik, svo ég þyrfti ekki að fara í skólann.“

Gyða var í Laugalækjarskóla á unglingastigi.
Þegar í fimmta bekk var komið fékk Gyða að færa sig um bekk en innan sama árgangs í Laugarnesskóla.

„Í þeim bekk átti ég vinkonur en þetta var bara of seint ég fór bara frá einu einelti yfir í annað og hlutirnir versnuðu bara. Stelpurnar sem voru vinkonur mínar hurfu bara, því ég varð fyrir svo miklu áreiti.“

Algjört helvíti

Gyða segir að skólagangan hafi ekki verið eitthvað lamb að leika sér við fram að þessu en hafi orðið að algjöru helvíti.



„Það var alveg sama hvað ég gerði eða sagði, allt var notað gegn mér. Mér var strítt út af öllu, meira að segja tókst þeim að finna fáránlegt uppnefni á mig, sem er nú ekki auðvelt þar sem ég heiti Gyða. Þá var það bara Gyða Gyðingatyppi. Skórnir mínir hurfu og fundust ofan í klósettinu og það sama með önnur útiföt.“

Gyða segist hafa gengið í gegnum ágæt tímabil þar sem lítið hafi gengið á og hún hafi átt vinkonur sem voru annað hvort yngri eða eldri.

„Svo byrjaði ballið alltaf aftur. Þegar ég fór í Laugarlækjarskóla í unglingadeild þá fannst mér ég þurfa að gera allt til passa inn hópinn. Ég fór að reykja og var eini unglingurinn í áttunda bekk sem reykti. Ég fór einnig að drekka, stunda kynlíf og hanga með krökkum sem voru mun eldri en ég.  Alltaf hélt áreitið áfram í skólanum,  bæði frá krökkunum og kennurum.“

Gyða segist loksins hafa fengið lesblindugreiningu í níunda bekk og þá hafi hún þurft að vera með sérstök gleraugu.

„Það var sérstaklega farið í skólann og útskýrt fyrir kennurunum að þessi gleraugu, sem voru með dökkgrænu gleri, væru til að hjálpa mér að lesa og skrifa. Ég mæti síðan daginn eftir í skólann með gleraugun. Mér fannst þau ekki kúl, en vildi samt láta á þetta reyna. Það fyrsta sem íslenskukennarinn bað mig um að gera var að taka niður þessi sólgleraugu. Þá fóru krakkarnir strax að gera grín af mér og ég fann fyrir mikilli minnimáttarkennd.“

Gyða fór því næst heim og tilkynnti foreldrum sínum að hún myndi aldrei aftur mæta í skólann með gleraugun.

„Pabbi varð brjálaður og fór á fund til skólastjórans og kennarans og svoleiðis hakkaði þá í sig. Hann segir síðan við mig að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur og að kennarinn myndi ekki aftur vera með leiðindi. Þannig að ég ákvað að gefa þessu einn séns í viðbót. Daginn eftir mætti ég í íslensku og tek upp gleraugun. Þá kemur kliður yfir bekkinn og kennarinn bað mig aftur um að taka niður sólgleraugun. Þar með gafst ég endanlega upp, hætti að fylgjast með í skólanum, gaf skít í allt nám og beið bara eftir að þessi kvöl myndi enda.“

Níu ára gömul og langaði að deyja

Gyða segist hafa hugsað fyrst, níu ára gömul, að hana langaði að deyja.



„Þetta er hugsun sem ekkert níu ára gamalt barn á að þurfa að hugsa. Ég man að ég hugsaði oft til þess að heimurinn yrði betri ef ég myndi deyja. Sú löngun jókst bara með árunum sem endaði með því að ég hugsaði alvarlega um að drepa mig. Ég var komin með plan í hausinn og búin að skrifa kveðjubréf til mömmu, pabba, afa og ömmu.“

Dóttir Gyðu hefur verið strítt töluvert í skólanum.vísir/millenium images
Gyða segir að það hafi eitthvað stöðvað hana, eitthvað sem hún veit ekki enn í dag hvað hafi verið.

„Ég kynntist stelpu sem varð í raun fyrsta vinkona mín og í gegnum hana kynntist ég systur hennar sem varð besta vinkona mín. Einnig fékk ég að kynnast vinum þeirra og allt urðu þetta æskuvinir mínir. Ég hef lítið samband við þetta fólk í dag en ég mun alltaf elska þau ofur heitt og minnast tímans með þeim sem bestu ár lífs míns.“

Fann sig í neyslu fíkniefna

Hún segir að eineltið hafi litað líf hennar og hún hræðist fátt jafn mikið og höfnun.

„Ég er mjög fljót upp og sérstaklega ef gert er eitthvað grín að mér. Ég er haldin þunglyndi og ofsakvíða og hef verið með hnút í maganum síðan ég man eftir mér. Þegar ég varð eldri þá fann ég mig í neyslu fíkniefna, því það var það eina sem slökkti algjörlega á vanlíðan minni. Það var skammtímalausn og maður þarf alltaf meira og meira til þess að slökkva á tilfinningum sínum.“

Alltaf þegar Gyða rekst á gerendur eineltisins dettur hún strax aftur í fortíðina.

„Í dag á ég tvö börn sem ég er ótrúlega stolt af og hef ég kennt þeim að vera alltaf góð við þá sem minna mega sín. Einelti eigi aldrei, undir nokkrum kringumstæðum að líðast.“

Kölluð feit og ljót

Gyða segist vilja koma fram með sögu sína fyrir dóttir sína sem er ellefu ára. 

„Hún er að lenda ítrekað í því að krakkarnir eru að kalla hana feita og ljóta í skólanum. Í dag kom hún heim og sagði mér frá löggu- og bófaleik í skólanum. Dóttir mín átti að fá að velja í lið en krakkarnir neituðu öll að vera með henni í liði. Þetta gerir mig svo reiða, af því að ég veit hvernig það er að vera í þessari stöðu. Ég veit hvernig það er að vera útilokuð og fá ekki að vera með. Það að horfa upp á barnið sitt lenda í því sama og ég er hræðilegt.“

Hún segist ætla berjast með kjafti og klóm fyrir börnin sín og tryggja að þau muni aldrei upplifa það sem hún gekk í gegnum sem barn.

„Börn í dag eiga að fá betri fræðslu um eineltismálefni og þó ég skilji að það geta alltaf komið upp ágreiningar, þá þurfi allir að vera vel meðvitaðir. Það þarf að útskýra og sýna börnum hvaða afleiðingar einelti hefur á fólk, ekki bara meðan það gengur yfir, heldur það sem eftir er af lífi þolandans. Það þarf að kenna börnum að standa upp fyrir hvort öðru og sérstaklega þegar upp kemur einelti. Ef maður gerir ekki neitt, þá er maður þátttakandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×