Fótbolti

Neville: HM er enginn framrúðubikar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neville ræðir við Roy Hodgson.
Neville ræðir við Roy Hodgson. Vísir/Getty
Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United, sparkspekingur Sky Sports og aðstoðarþjálfari enska landsliðsins, segir að Englendingar verði einfaldlega að jafna sig á því að HM 2022 verði haldið að vetri til.

Sjá einnig: Styttra HM 2022 í nóvember og desember

Mikið hefur verið rætt og ritað um yfirvofandi ákvörðun Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, að halda HM í nóvember og desember þegar keppnin fer fram í Katar árið 2022. Er það gert vegna mikils sumarhita í Katar.

Áhrifin verða mikil á þær deildir og lið sem spila hefðbundin vetrartímabil, líkt og tíðkast í stærstu deildum Evrópu. Neville var í viðtali á Talksport um málið og fannst ótækt að tala um að verið væri að raska keppnistímabilinu í ensku úrvalsdeildinni.

Sjá einnig: Engar bætur fyrir evrópsk félög vegna HM 2022

„Þú talar um HM eins og það sé Sherpa Vans-bikarinn,“ sagði Neville en bikarkeppni neðri deilda í Englandi hét Sherpa Vans-bikarinn frá 1987-1989. Keppnin heitir í dag Johnstone's Paint-bikarinn en margir Íslendingar kannast við heitið framrúðubikarinn eftir að keppnin bar nafn frá Autoglass frá 1991-94 og svo Auto Windscreens frá 1994-2000.

„HM er HM - þetta er ekki einhver dolla sem verið er að spila um. Það er verið að tala um að raska ensku úrvalsdeildinni í eitt ár á 24-28 ára fresti, svo að hægt sé að halda HM í þessari heimsálfu. Knattspyrna er alheimsíþrótt.“

Hann segir að það hafi verið margt athugavert við aðdraganda þess að Katar var valið til að halda keppnina. „En ég hef komið nokkrum sinnum til miðausturlanda og þeir eiga þar skilið að fá að halda HM í fótbolta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×