Erlent

27 dóu úr kulda eftir að þeim var bjargað við Ítalíustrendur

Bjarki Ármannsson skrifar
Líkum hinna látnu komið fyrir við höfnina.
Líkum hinna látnu komið fyrir við höfnina. Vísir/AP
Að minnsta kosti 27 afrískir flóttamenn dóu úr kulda eftir að þeim var bjargað af uppblásnum bát í ítalskri landhelgi í kvöld. Að sögn yfirvalda á Ítalíu tilheyrðu hinir látnu 105 manna hópi sem fannst um 160 kílómetrum frá eyjunni Lampedusa, sem er um miðja vegu milli Túnis og Sikileyjar.

Flóttamennirnir höfðu notað gervihnattasíma til að kalla á aðstoð þegar þau lentu í vonskuveðri, að því er kemur fram á vef BBC. Mikið öldurót var á svæðinu og hitastig rétt yfir frostmarki.

Pietro Bartolo, fulltrúi heilbrigðisyfirvalda á Lampedusa, segir fólkið hafa þurft að eyða um átján klukkutímum á opnu þilfari löggæslubáta á leið á þurrt land.

Yfirvöld á Lampedusa eru ekki ókunnug hörmungum sem þessum. Í október árið 2013 fórust 366 flóttamenn þegar bát þeirra hvolfdi skammt frá eyjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×