Handbolti

Guðmundur: Góð lexía fyrir okkur að tapa fyrir Íslendingum

Arnar Björnsson í Katar skrifar
Fáir þekka íslenska landsliðið betur en Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, sem nú stýrir danska landsliðinu.  Undir stjórn Guðmundar léku Danir við Íslendinga og Svía á æfingamótinu fyrr í þessum mánuði.  

„Að tapa fyrir Íslendingum var góð lexía fyrir okkur“, segir Guðmundur en ósigurinn gegn „strákunum okkar“ er eini ósigur Dana undir stjórn Guðmundar.  

„Það er ekki gott að fara á stórmót eftir að hafa unnið alla æfingaleikina, það hefur sjaldnast verið gott vegarnesti“.  

Guðmundur viðurkennir að tapið hafi auðvitað verið svekkjandi svona strax eftir leik: "Það er bara eðlilegt því ég vil aldrei tapa“.  

Danir tóku Svía síðan í kennslustund í næsta leik og Guðmundur var ánægður með leik sinna manna.   Hann er spenntur fyrir íslenska landsliðinu og segir að í fyrsta sinn í langan tíma séu lykilmenn heilir.

„Það eru frábærir leikmenn í íslenska liðinu, vel spilandi og í hópnum er mikil reynsla.  En hvort liðið er betra, það íslenska eða það sænska?  

„Það er erfitt að segja.  Svíar geta spilað frábæra vörn og eru með geysisterka markverði og hraðaupphlaup þeirra eru hættuleg.  Ef Íslendingar spila sóknarleik gegn Svíum eiga þeir möguleika“, segir Guðmundur Guðmundsson fyrrverandi þjálfari íslenska landsliðsins.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×