Innlent

Flugu á Bárðarbungu til að gera við mæli

Svavar Hávarðsson skrifar
Eldgosið mun halda áfram langt inn á nýtt ár, ef að líkum lætur.
Eldgosið mun halda áfram langt inn á nýtt ár, ef að líkum lætur. mynd/martin riishuus
Vísindamenn flugu yfir gosstöðvarnar í Holuhrauni á fimmtudag. Meðal erinda þeirra var að afla nákvæmra gagna um rúmmál hraunbreiðunnar. Þeir reikningar verða tilbúnir nú eftir helgi, en vikugömul mæling sýndi að rúmmál hraunsins er metið um einn rúmkílómetri.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með vísindamenn á Bárðarbungu í gær til að koma á sambandi við gps-mælitækið í öskjunni.

Eitt helsta sérkenni gossins sem hófst þann 31. ágúst er mikið og óvenju stöðugt hraunflæði. Kvikan sem upp kemur er fremur frumstætt basalt með efnafræðileg einkenni eldstöðvakerfis Bárðarbungu. Hraunbreiðan er nú 76 ferkílómetrar.

Flæði hrauns í september var nærri 200 rúmmetrum á sekúndu en meðaltal fyrir nóvember er talið vera undir 100 rúmmetrum á sekúndu. Nýja hraunið er það stærsta sem runnið hefur hér á landi frá Skaftáreldum (1783-1784) og sennilega þriðja stærsta hraun sem runnið hefur á jörðinni á sama tímabili.

Þótt dregið hafi úr gosinu þá er jarðskjálftavirkni og hraunflæði þó enn mikið í samanburði við þau eldgos sem orðið hafa á Íslandi í yfir hundrað ár. Ef þróunin verður með sama hætti og verið hefur mun bæði sig Bárðarbungu og eldgosið í Holuhrauni halda áfram í að minnsta kosti nokkra mánuði, er mat vísindamannaráðs almannavarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×