Skoðun

Já, sæll.is

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Í síðasta mánuði fjallaði Vísir um niðurstöður rannsóknar sem gerð var á vegum Oregon State-háskólans í Bandaríkjunum, en í þeim kom fram að prófílmyndir fólks á Facebook skipta miklu máli. Minna mark er tekið á þeim sem sýna of mikið hold á prófílmynd sinni en þeim sem nota púkalegar passamyndir. Ég held að við getum flest verið sammála um að þessar niðurstöður komi ekkert sérstaklega á óvart.

En lífið er ekki bara Facebook. Það eru fleiri leiðir til þess að mynda sér skoðanir á fólki. Fyrir mér skipta til dæmis frasar sem fólk notar miklu máli. Ekki að ég dæmi endilega fólk, heldur hjálpar það manni að staðsetja þá sem maður talar við í hinu mannlega litrófi.

Þegar maður horfir til baka koma margir skemmtilegir frasar upp í hugann. „Glætan“ var mjög sterkur hérna í gamla daga. Með vexti netsins fóru sífellt fleiri að skeyta .is aftan við allt. Frasinn „Já, sæll“ var auðvitað svo vinsæll að hann var prentaður á boli og húfur. Allir þessir frasar og fleiri til eiga það sameiginlegt að vera útrunnir. Því frasar eru eins og mjólkin. Þeir endast ekki lengi.

Frasanotkun á Facebook er líka mikilvæg. Umræðumerkin svokölluðu eru til dæmis orðin ansi hvimleið. Enn eru sumir sem setja lokahnykkinn á hnyttnum Facebook-færslum inn í eina og langa umræðumerkingu.

Að nota útrunninn frasa er ákveðin yfirlýsing. Maður þarf að vera duglegur að fylgjast með hvaða frasar eru í tísku. Frasarnir eru eins og fallegur vasaklútur á stílhreinum jakkafötum. Eins og ermahnappar á skyrtu. Að nota nýja og gilda frasa getur skipt sköpum í því að skapa sér ímynd og getur auðgað tungumálið og hjálpað til við tjáninguna. Getur skipt sköpum í því hvernig aðrir horfa á mann.

Ein regla sem allir mega temja sér þegar kemur að frösum: Ef frasinn er kominn á boli, þá er hann útrunninn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×