Skoðun

Lítil saga um mosku og gott fólk

Laufey Steingrímsdóttir skrifar
Fyrir um 15 árum síðan var byggð moska í grónu íbúahverfi í norðurhluta Seattle. Í þessu hverfi bjó m.a. vinafólk mitt frá háskólaárunum, aldraðir Vestur-Íslendingar, Ray og Doris Olason, sem urðu mér nokkurs konar fósturfjölskylda á námsárunum – og eru raunar enn.

Nokkrum árum eftir að moskan reis á götuhorninu þeirra var ráðist á tvíburaturnana í New York. Nágrannar moskunnar, undir forystu þeirra Dorisar og Rays, hópuðust það sama kvöld til moskunnar með blóm, kerti og mat, og skiptust á um að standa vörð um moskuna alla nóttina. Þau héldu uppteknum hætti vikum saman, sannkristnir nágrannarnir, og gættu þess að bænahúsið í hverfinu þeirra og þeir sem þar komu saman, yrðu ekki fyrir aðkasti eða skaða vegna þess haturs og ótta sem greip víða um sig í tengslum við þessa voðaatburði.

Þetta er falleg saga, en henni er ekki lokið.

Nokkrum árum síðar var Ray Olason, þá háaldraður, að slá blettinn fyrir framan húsið sitt. Grasbletturinn var við götuna og óvarinn fyrir umferð. Þá gerist það að stór trukkur kemur á fleygiferð og keyrir gamla manninn niður. Hann slasaðist mikið, náði sér aldrei fyllilega eftir þetta slys og er nú látinn. Þegar Doris kona hans kom heim frá sjúkrahúsinu seint um kvöldið eftir slysið var hins vegar búið að hreinsa allt blóð og önnur ummerki við húsið þeirra. Þar höfðu nágrannarnir úr moskunni verið að verki og vildu þar með sýna vinum sínum og velgjörðarmönnum þakklæti fyrir umhyggjuna um árið. Í mörg ár þar á eftir, raunar allt þar til Doris og Ray fluttu á öldrunarheimili, sáu svo múslimarnir úr moskunni um að slá þennan blett þegjandi og hljóðalaust, svo aldraðir íbúarnir þyrftu ekki að stofna sér í hættu við garðsláttinn.

Mér fannst ég þurfa að deila þessari sögu einmitt núna. Flest fólk er nefnilega gott fólk, hvaða trúarbrögð sem það annars aðhyllist, en við getum fyrst og fremst búist við vináttu og velvild þess ef við sýnum hana sjálf.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×