Lífið

Fyrsti roller-derby leikurinn á laugardaginn

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Um 35 konur æfa roller derby hjá Roller Derby Ísland. Tólf þeirra eru nú á leiðinni til Finnlands í keppnisferð.
Um 35 konur æfa roller derby hjá Roller Derby Ísland. Tólf þeirra eru nú á leiðinni til Finnlands í keppnisferð. Mynd/Pétur Jóhann Pétursson
„Þetta verður svona fyrsti formlegi leikurinn okkar, þó svo að við séum í raun að spila innbyrðis,“ segir Guðný Jónsdóttir, stofnandi roller derby á Íslandi en á laugardaginn fer fram fyrsti roller derby-leikurinn hér á landi.

Roller derby er hröð snertiíþrótt sem margir lýsa sem ruðningi á hjólaskautum. Leikmenn skauta í hringi, hrinda andstæðingum úr vegi og reyna að skora stig.

„Liðið var stofnað fyrir um það bil þremur árum en þetta fór allt rólega af stað til að byrja með. Allir íþróttasalir héldu að það kæmu rispur eftir skautana svo til að byrja með æfðum við í bílakjallaranum á Höfðatorgi,“ segir Guðný, sem er einn fimm þjálfara liðsins.

Leikurinn á laugardaginn fer fram í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi klukkan 12.00. Er hann hluti af undirbúningi liðsins fyrir fyrstu keppnisferðina en liðið er á leiðinni til Finnlands í júlí. Guðný segir að hópnum verði skipt í tvennt og keppa stelpurnar því innbyrðis, enda ekkert annað roller derby-lið á Íslandi.

„Við erum um 35 í félaginu en erum 12 á leiðinni til Finnlands að spila. Í október fáum við svo franskt lið í heimsókn svo hjólin eru farin að snúast almennilega núna,“ segir Guðný, sem hvetur fólk til að mæta á laugardaginn.

„Við förum í sumarfrí í júlí en byrjum aftur í ágúst með sérstakt nýliðaprógramm. Svo það er um að gera að fylgjast með okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×