Viðskipti innlent

Færir sig til Sinfóníunnar

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Greipur er spenntur fyrir að takast á við ný verkefni hjá Sinfóníuhljómsveitinni.
Greipur er spenntur fyrir að takast á við ný verkefni hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Fréttablaðið/Daníel
Greipur Gíslason, verkefnastjóri HönnunarMars, hefur sagt starfi sínu lausu hjá Hönnunarmiðstöð og fært sig um set til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Greipur tekur við nýrri stöðu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Verkefni hans þar verða á markaðs- og kynningarsviði með áherslu á ný verkefni.

Greipur er ekki ókunnugur starfi hjómsveitarinnar en hann leysti af sem tónleikastjóri veturinn 2009-2010 samhliða starfi sínu fyrir HönnunarMars. Þá var hann verkefnastjóri fyrstu Tectonics-tónlistarhátíðar Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2012.

„Þetta er skemmtilegur vinnustaður og stór menningarstofnun. Það hefur gengið mjög vel hjá Sinfó undanfarið og verkefnin sem ég tek að mér verða krefjandi en hugmyndin er að fjölga gestum enn frekar og skoða nýja möguleika og verkefni fyrir hljómsveitina,“ segir Greipur.

Hann hefur stýrt HönnunarMars frá upphafi eða frá því hann var fyrst haldinn 2009. Hönnunarmiðstöð Íslands á og rekur HönnunarMars, sem er langstærsti hönnunarviðburður ársins með yfir 30 þúsund gesti. Þar hefur Greipur borið hitann og þungann af skipulagningu hátíðarinnar. „Okkur hefur tekist mjög vel með hátíðina, mikið betur en við ætluðum okkur. Ég lærði mjög mikið á þessu starfi og það verður mikil eftirsjá í grasrótinni þar inni, þótt ég hafi nú ekki farið langt og aldrei að vita hvort maður geti ekki hjálpað til þar sem maður fer,“ segir Greipur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×