Íslenski boltinn

Það þýðir nú lítið að fara á taugum strax

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. Vísir/Stefán
„Mér fannst við spila vel í fyrstu tveimur leikjunum en í heildina fáum við á okkur ellefu mörk sem er einfaldlega alltof mikið. Við spiluðum bara ekki nógu sterkan varnarleik,“ segir Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, um leikina þrjá sem liðið spilaði á Atlantic Cup-mótinu í Algarve.

FH tapaði öllum þremur leikjunum á móti. Fyrst fyrir sænska liðinu Örebro, 4-1, svo Spartak Moskvu, 3-1, og endaði svo á 4-2 tapi fyrir austurríska B-deildarliðinu Mattersburg.

„Við erum ánægðir með þessa ferð. Við sáum margt jákvætt í okkar leik en það er líka ýmislegt sem við þurfum að laga áður en deildabikarinn byrjar,“ segir Heimir.

Miðverðirnir Freyr Bjarnason og Guðmann Þórisson eru farnir og hefur leit liðsins að staðgenglum þeirra gengið upp og ofan. Bandaríkjamaðurinn Sean Reynolds er mættur til liðsins.

„Hann hefur staðið sig vel að mörgu leyti en við vissum alltaf að það tæki tíma fyrir hann að aðlagast og hann mun sá sinn tíma. En það er ekkert leyndarmál að við erum að leita að mönnum til að styrkja liðið.“

FH var með leikmann frá Grænhöfðaeyjum til skoðunar í Portúgal en hann meiddist eftir þrjár æfingar og gat því ekki spilað neinn leik.

„Við eigum eftir að setjast niður og skoða hvort við munum fá hann hingað til æfinga. Það fer eftir því hversu lengi hann er frá,“ segir Heimir og bætir við:

„Það er alveg hægt að finna menn en auðvitað vill maður alvöru gæði og gæði kosta peninga. Nú er bara febrúar þannig að við höfum tíma að mínu mati. Við höfum samt oft spilað betur á þessum tíma árs en ég held það þýði nú lítið að fara á taugum yfir því strax. Það er langt í mót,“ segir Heimir Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×