Íslenski boltinn

Bjarni Guðjóns: Miklu skemmtilegra starf en ég hélt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram.
Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram. Mynd/Pjetur
 „Það er alltaf gaman að vinna titla en það var ekki það sem skipti máli fyrir liðið á þessum tímapunkti,“ segir Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram, í samtali við Fréttablaðið en hann stýrði Fram til Reykjavíkurmeistaratitils á mánudagskvöldið. Fram vann þá KR í vítaspyrnukeppni og fagnaði Bjarni sínum fyrsta titli sem þjálfari í meistaraflokki.

„Reynslan sem strákarnir fengu úr þessum leik skiptir meira máli. Þó þetta hafi verið Reykjavíkurmót var þetta úrslitaleikur og fáir þessara stráka hafa spilað svona úrslitaleiki. Þetta mót er gott í þeim tilgangi að búa sig undir sumarið. Við fengum dýrmæt tækifæri til að spila góða leiki með góða dómara við góðar aðstæður,“ segir Bjarni, sem varð með sigrinum á undan Rúnari Kristinssyni til að vinna Reykjavíkurmótið.

Mikil samheldni

Bjarni gerði miklar breytingar á Fram-liðinu þegar hann tók við en þrettán leikmenn eru komnir, margir ungir og óreyndir, í efstu deild. Þá yfirgáfu níu leikmenn Safamýrina.

„Það jákvæðasta í þessari uppbyggingu er sennilega hvernig strákunum hefur tekist að búa til samheldni úr annars ungum hópi. Helmingurinn eða svo er alveg nýkominn inn þannig að menn eiga hrós skilið fyrir þetta,“ segir Bjarni.

Þjálfarinn hefur ekki áhyggjur af frumraun ungu drengjanna í deild þeirra bestu því þeir eru góðir í fótbolta. Hann vonast bara til að þeir grípi tækifærið sem þeim er nú gefið.

Skemmtilegra en ég hélt

„Það er ekki mikið sem ég kenni þeim hvað varðar tækni og þannig heldur fá þeir bara tækifæri til að spila í efstu deild. Menn þurfa að passa upp á allt saman eins og hvíld og mataræði og ég held að allir séu að gera það,“ segir Bjarni sem nýtur sín verulega í nýju starfi.

„Þetta er alveg virkilega skemmtilegt og gefandi. Starfið er eiginlega miklu skemmtilegra en ég hélt það yrði. Þetta grípur mann alveg,“ segir Bjarni Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×