Tónlist

Kenna raftónlistarsköpun fyrir norðan

Guðni í Hljóðheimum
Guðni í Hljóðheimum Vísir/GVA
Í lok mánaðarins, 22. og 23, febrúar, munu Hljóðheimar standa fyrir tveggja daga raftónlistarnámskeiði á Akureyri þar sem farið verður yfir helstu undirstöðuatriði í pródúseringu á elektrónískri tónlist.

Þátttakendur fræðast meðal annars um tónlistarsköpun, vinnuflæði, upptökuaðferðir, hljóðblöndun, uppsetningu laga og lifandi flutning.

„Okkur fannst tími til kominn að setja upp ítarlegt raftónlistarnámskeið fyrir norðan. Við vitum fyrir víst að það er mikill áhugi á Akureyri fyrir raftónlist og mikið að efnilegum ungum pródúserum,“ segir Guðni Einarsson, betur þekktur sem Guðni í Hljóðheimum, einn aðstandenda námskeiðsins.

„Við munum fara yfir atriði eins og vinnuflæði og tækni þegar kemur að pródúseringu, lagasmíðum og lifandi flutningi á elektrónískri tónlist,“ útskýrir Guðni.

„Svo verðum við með alls kyns tæki og tól fyrir þátttakendur að prufa og leika sér með svo sem trommuheila, synthesizera og MIDI-stjórnborð. Allir geta skráð sig á námskeiðið og er ekkert aldurstakmark. Það eina sem menn þurfa hafa er brennandi áhugi á tónlist og vilji til þess að búa til tónlist,“ segir Guðni. 

Guðni stendur einnig fyrir vikulegum þáttum á Vísi, Á bak við borðin. Þar heimsækir Guðni, ásamt plötusnúðnum Intro Beats, tónlistarmenn í stúdíóin sín og grennslast fyrir um vinnuferli þeirra. Síðast heimsóttu þeir félagar tónlistarmanninn Oculus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×