Innlent

Ferðamenn við Höfðatorg voru skelfingu lostnir yfir vindinum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Hún kom bara fjúkandi frá Höfða undan vindinum og náði tangarhaldi á skiltinu og síðan kom eiginmaður hennar með bakpoka á bakinu og fauk til hennar. Þau héldu sér lífhaldi á skiltinu,“ segir Ari Sigurðsson sem kom ferðamönnum til aðstoðar fyrir utan Höfðatorg í dag. Parið sem hann hjálpaði fauk í miklum vindi og var í sjálfheldu á umferðareyju fyrir utan turninn.

Vísir birti fyrr í dag myndband sem tekið var af tilraun Ara og kunningja hans til að bjarga ferðamönnunum en á því sést hvernig þau fjúka niður í bílakjallara Höfðatorgs.

Ari, sem vinnur í Höfðatorgsturninum, fylgist með parinu í nokkrar mínútur áður en hann sá að ekki var annað í stöðunni en að fara út að hjálpa. Á sama tíma og hann var kominn út kom annar maður, sem er gamall skólabróðir hans, einnig að parinu. „Það var ekki annað að gera en að fara út að hjálpa,“ segir hann.

„Svo létum við bara gossa. Við vorum alveg að ná inn á malbikið þegar vindurinn kom bara og tók okkur,“ segir hann. „Svo var húsvörðurinn kominn skömmu síðar með bíl til að stoppa fólk af að ganga þarna á milli.“

Enginn slasaðist í þessum átökum fyrir utan minniháttar skrámur að sögn Ara. Ferðamönnunum var þó brugðið. „Þau höfðu aldrei upplifað annað eins og þau voru bara skelfingu lostin, það verður að segjast alveg eins og er,“ segir Ari.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×