Innlent

Frosti styður ekki hækkun matarskatts

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, segist ekki geta stutt hækkun á matarskatti eins og staðan er í dag. Hann segir þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið ekki nægja til að tryggja að skattabreytingarnar leiði til kjarabóta fyrir alla í samfélaginu. Þetta sagði hann í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Þar var Frosti spurður hvort hann styddi yfir höfuð hækkun matarskatts. „Aðeins ef það leiðir til kjarabóta fyrir alla í samfélaginu,“ svaraði hann og sagði að þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið nú vegna fyrirhugaðra breytinga ekki duga. „Ekki það sem við vorum búin að sjá. Það dugar ekki. Það verður að gera betur og við eigum von á því að fá breytingar.“

Frosti segist þó vera viss um að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi lagt fram tillögurnar með það að markmiði að heildaráhrifin yrðu jákvæð fyrir alla. „Ég held að það hafi verið lagt fram með því hugarfari af fjármálaráðherra að þetta ætti að vera skattalækkun fyrir alla, kjarabót fyrir alla og til að draga úr hvötum til undanskota,“ sagði hann. 

Hægt er að hlusta á brot úr Sprengisandi í spilaranum efst í fréttinni en matarskatturinn kemur til umræðu undir lok hljóðbrotsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×