Erlent

Ebólusmitum fjölgar hratt í Síerra Leóne

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Ebólutilfelli í Síerra Leóne hafa margfaldast frá því sem áður var en í nýrri skýrslu samtaka AGI kemur fram að þeim fjölgi allt að níu sinnum hraðar á dreifbýlum svæðum nú en fyrir tveimur mánuðum síðan. Þá kemur fram að þeim fjölgi allt að sex sinnum hraðar í höfuðborginni, Freetown. Í byrjun septembermánaðar greindist að meðaltali um eitt smit á dag en í lok október voru þau komin upp í tólf.

Fram kemur í skýrslunni að smitum fjölgi „skelfilega hratt“ og því sé nauðsynlegt að grípa strax í taumana. „Hraði útbreiðslunnar í Síerra Leóne sýnir að við megum engan tíma missa,“ segir Nick Thompson formaður AGI í samtali við BBC.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin greindi frá því í lok október að dregið hafi úr útbreiðslu ebólufaraldursins í Líberíu. Þó megi ekki skilja það sem svo að faraldrinum sé að ljúka – litlar líkur séu á því.

Um 13.700 hafa smitast af veirunni í ár. Þar af hafa tæplega 5.000 orðið faraldrinum að bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×