Innlent

Mynduðu varnargarð með bílum sínum utan um slasaðan hund

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Atburðurinn hafði áhrif á Kristinn sem þekkir það af eigin raun að missa hundinn sinn.
Atburðurinn hafði áhrif á Kristinn sem þekkir það af eigin raun að missa hundinn sinn. Myndir/Kristinn
Kristinn Bjarnason varð djúpt snortinn þarsíðustu helgi af umhyggjusemi vegfarenda þar sem hann keyrði framhjá slysstað við afleggjarann að Hafravatni. „Ég tók eftir því hvað það hafði mörgum bílum verið lagt út í kant þannig að við hægðum á okkur,“ segir Kristinn sem var farþegi í bílnum en í bílstjórasætinu var barnsmóðir hans. „Þegar við komum nær þá tók ég eftir því að margir bílanna höfðu lagt þannig að þeir mynduðu skjól á götunni. Ég hélt að það hefði orðið alvarlegt slys á fólki miðað við umstangið.“ Hann segist síðan hafa tekið eftir því að fjórar manneskjur krupu yfir hundi sem hann grunar að hafi verið dauður, allavega talsvert slasaður.

Fólkið vafði hundinn í teppi en Kristinn segir hann hafa verið í stærri kantinum, hefði mögulega getað verið stór labrador. „Mér fannst svolítið magnað að sjá þetta og þetta snart mig af því að ég átti sjálfur hund í níu ár sem ég missti fyrir ári síðan,“ útskýrir Kristinn. En það var ekki vegna umferðarslyss. „Nei hann dó úr elli,“ útskýrir Kristinn. „Hann var í raun og veru skugginn minn og besti vinur í níu ár.“ Hundurinn fékk síðan gigt og segist Kristinn ekki hafa getað horft upp á hann þjást og því hafi honum verið lógað.

Alltof oft sem fólk vanrækir siðferðislega skyldu um að hlú að dýrum

Af þessum sökum fannst Kristni hann knúinn til að hafa orð á atburðinum. Alltof algengt sé að fólk vanræki þessa siðferðilegu skyldu að hugsa um dýrin og keyri bara framhjá. „Mér fannst þetta mjög fallegt og mikilvægt að hafa orð á þessu.“ Kristinn sagði söguna á Facebook en hann vonast til þess að fá frekari upplýsingar um málið. Mikilvægt sé að umræða skapist um viðbrögð sem þessi þar sem það sé mikilvægt að aðstoða dýr sem hafa lent í slíku óhappi, hvort sem um hunda eða ketti eða eitthvert allt annað dýr sé að ræða. Einnig sé mikilvægt að fjarlægja dýrshræ verði fólk þeirra vart á götum úti.

Kristinn segir atvikið sem um ræðir hafa átt sér stað milli þrjú og fjögur laugardaginn 11. október síðastliðinn. Þeir sem vita meira um atvikið eru hvattir til að hafa samband á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×