Innlent

Mengun mælist margfalt yfir heilsuverndarmörkum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mengunin stafar af eldgosinu í Holuhrauni.
Mengunin stafar af eldgosinu í Holuhrauni. VÍSIR/EGILL AÐALSTEINSSON

Mælir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem staðsettur er við leiksólann Sjónarhól í Grafarvogi sýndi í kvöld að brennisteinsdíoxíðmengun væri í 1.870 míkrógrömmum á rúmmetra. Þetta sýndi mælirinn klukkan sjö í kvöld en almannavarnadeild ríkislögreglustjóra varaði á svipuðum tíma við gosmengun á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði.

Klukkan 20.30 var klukkustundarmeðaltal brennisteinsdíoxíðmengunarinnar 1.017 míkrógrömm á rúmmetra. Annar mælir, sem staðsettur er á Grensásvegi, sýndi klukkan átta í kvöld 1.126 míkrógrömm á rúmmetra sem klukkustundarmeðaltal. Það eru miðlungs loftgæði.

Mengunin er það mikil að flest fólk ætti að geta fundið lykt af henni en samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunnar finna flestir lykt að brennisteinsdíoxíðmengun þegar hún nær 1.000 míkrógrömmum á rúmmetra. Styrkur brennisteinsdíoxíð er í hreinu andrúmslofti um 1 míkrógramm á rúmmetra.

Samkvæmt vef Reykjavíkurborgar eru heilsuverndarmörk brennisteinsdíoxíðs í andrúmsloftinu 350 míkrógrömm á rúmmetra á klukkustund. Styrkurinn sem nú mælist er því margfalt umfram þessi viðmið.

Í tilkynningu frá almannavörnum frá því fyrr í kvöld var þeim sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma bent á að fylgjast með loftgæðamælingum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.