Innlent

Fólki ráðlagt að forðast áreynslu utandyra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sólin hefur verið rauð á höfuðborgarsvæðinu undanfarna tvo morgna vegna gosmengunar.
Sólin hefur verið rauð á höfuðborgarsvæðinu undanfarna tvo morgna vegna gosmengunar. Vísir/Vilhelm
Styrkur brennisteinsdíoxíðs í loftgæðamælistöð við Norðlingaholt í Reykjavík var 600 míkrógrömm á rúmmetra klukkan 11:10 í morgun. Talið er líklegt að gildi geti farið í sambærilegan styrk annarsstaðar í Reykjavík í dag.

Í töflu á heimasíðu Almannavarna kemur fram að sé styrkur yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra er fólki ráðlagt að forðast áreynslu utandyra. Þá er fólki sem er viðkvæmt í lungum ráðlagt að fylgjast sérstaklega með mælingum á loftgæðum á heimasíðu Reykjavíkurborgar eða á vef Umhverfisstofnunar.

Á vefsíðu Heilbrigðiseftirlitsins má sjá kort yfir staðsetningu loftgæðamælistöðva í Reykjavík en þar er hægt að fylgjast með styrk brennisteinsdíoxíðs og annarra efna. Liturinn er grænn ef styrkurinn er undir heilsuverndarmörkum fyrir öll efni en sýndur er hæsti styrkur efna á hverjum tíma.

Til að fá ítarlegri upplýsingar um loftgæði í Reykjavík má velja mælistað á kortinu. Styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) er hægt að skoða í loftgæðafarstöð II, sem nú er staðsett við leikskólann Sjónarhól í Völundarhúsum 1 í Grafarvogi og loftgæðamælistöðinni við Grensásveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×