Innlent

Haraldur nýr bæjarstjóri í Hafnarfirði

Samúel Karl Ólason skrifar
Haraldur Líndal Haraldsson verðandi bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Haraldur Líndal Haraldsson verðandi bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag að ráða Harald Líndal Haraldsson hagfræðing í stöðu bæjarstjóra. Haraldur kemur til starfa hjá Hafnarfjarðarbæ í lok ágúst.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarkaupstað segir að Haraldur hafi mikla reynslu af bæjar- og sveitarstjórastarfi. Hann var bæjarstjóri á Ísafirði í tíu ár og sveitarstjóri Dalabyggðar í fimm ár. Undanfarin ár hefur Haraldur starfað sjálfstætt sem ráðgjafi og sérhæft sig í endurskipulagningu í rekstri og fjármálum sveitarfélaga.

Haraldur er 61 árs, kvæntur Ólöfu Thorlacius og eiga þau þrjú uppkomin börn og þrjú barnabörn.

,,Það er ánægjulegt að fá einstakling í starf bæjarstjóra sem hefur svo víðtæka og langa reynslu og þekkingu á innviðum og rekstri sveitarfélaga“, segir Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs.

„Mörg spennandi verkefni eru framundan og við þurfum að nýta öll þau tækifæri sem eru til staðar til að efla bæjarfélagið. Við hlökkum til samstarfsins við Harald og er ég sannfærð um að reynsla hans eigi eftir að nýtast Hafnarfirði vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×