Íslenski boltinn

Guðjón Árni: Tek ekki áhættu með höfuðið á mér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Ég veit það ekki. Ég vildi ég gæti svarað því afdráttarlaust, en það eru líkur á því. Ég á eftir að taka lokaákvörðun,“ sagði GuðjónÁrniAntoníusson við ArnarBjörnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2, aðspurður hvort hann væri búinn að spila sinn síðasta fótboltaleik.

Guðjón Árni hefur lítið sem ekkert getað spilað undanfarna 18 mánuði vegna höfuðmeiðsla. Læknum sem hafa skoðað hann líst ekki á blikuna.

„Þeir eru ekki bjartsýnir. Þeir eru allir á sama máli um að ég þurfi að taka mér góða hvíld frá knattspyrnu,“ sagði Guðjón Árni en hvað var það sem gerðist?

„Þetta gerðist fyrst í fyrra, nokkrum dögum fyrir fyrsta leik. Þá fæ ég þungt högg á höfuðið á æfingu og skömmu síðar fæ ég annað þungt högg á höfuðið. Ég vissi bara ekki betur um einkenni heilahristnings. Mér leið skringilega en spáði lítið í því.“

„Í fyrstu leikjunum var ég í smá vandræðum með daglegt amstur og fann að ég var ekki eins og ég átti að mér að vera. Svo í leik gegn ÍBV fæ ég fast skot í höfuðið og eftir það fannst mér ég vera frekar ringlaður inn á vellinum.“

„Daginn eftir vakna ég og líður eins og ég sé ekki í líkamanum. Ég var kolringlaður og gat varla gengið. Þá fyrst fór ég að láta athuga mig,“ sagði Guðjón Árni.

En er hann ekki einfaldlega að segja óbeint að hann verði að leggja knattspyrnuskóna á hilluna?

„Jú, jú - þannig. En maður þarf að huga að nokkrum öðrum þáttum í þessu. Það væri langskynsamlegast að hafa hætt í fyrra en ég varð einkennalaus, leið vel og gat spilað fótbolta. Það gerði mig vongóðan um að geta haldið áfram. Ég held ég tefli ekkert með tvær hættur með höfuðið á mér,“ sagði Guðjón Árni Antoníusson.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×