Erlent

Bandaríkjamenn huga að loftárásum í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Ef flugvélar Bandaríkjamanna snúa aftur til Írak, eftir þriggja ára fjarveru, verður markmið þeirra að hjálpa til við að brjóta niður sókn ISIS. Samtökin hafa verið í mikilli sókn undanfarna daga og ógna tilveru stjórnvalda í Írak.

Guardian hefur þetta eftir embættismönnum í Pentagon, en yfirvöld í Bandaríkjunum fara nú yfir alla möguleika til að koma stjórnvöldum í Írak til hjálpar. Að mestu er horft til mannaðra flugvéla, frekar en dróna sem hafa verið mikið notaðir síðustu ár.

Þó stendur ekki til að senda hermenn til landsins þar sem 4.500 þeirra féllu á árunum 2003 til 2011.

Nokkrir embættismenn sem Guardian talaði við segja að möguleg skotmörk séu einnig í Sýrlandi. ISIS stjórna stórum svæðum í austurhluta Sýrlands sem og í Írak.

Frá Hvíta húsinu heyrist að ekki sé vilji fyrir langdregnum átökum, en því lengur sem beðið er því líklegra er að vígamenn ISIS komi sér fyrir í borgum og bæjum Írak. Á meðan þeir keyra eftir þjóðvegum landsins séu þeir auðveld skotmörk.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag að hjálp Bandaríkjanna væri bundin því að yfirvöld í Írak stigu fram með áætlun um langtímaöryggi í landinu. Hann hefur þó lítið sagt um markmið Bandaríkjanna og Pentagon bætti litlu við.

John Kerby, aðmíráll og upplýsingafulltrúi Pentagon, sagði á blaðamannafundi í dag að skammtímamarkmiðið væri að brjóta á bak aftur hraða sókn ISIS. Hann neitaði þó að skilgreina það markmið frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×