Innlent

Hægt að borga í strætó með símanum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Kolbeinn segir þjónustuna vera til þess að auðvelda notendum að nýta þjónustuna.
Kolbeinn segir þjónustuna vera til þess að auðvelda notendum að nýta þjónustuna.
Strætó bs. hefur ákveðið að innleiða nýtt greiðslukerfi sem gerir farþegum kleift að greiða fargjaldið í gegnum smáforrit í snjallsímanum sínum. Verður forritið bæði aðgengilegt android og iPhone notendum.

„Við höfum verið að huga að þessu um nokkra hríð og verið að skoða hvaða leiðir séu bestar,“ sagði Kolbeinn Óttarson Proppé, upplýsingafulltrúi Strætó. Sérstakt teymi var myndað til þess að vinna að þróuninni og segir Kolbeinn að sérstaklega hafi verið litið til snjallsíma þar sem að nánast hver einasti maður eigi nú slíkt tæki. „Þetta er kerfi sem kallast upp á ensku mobile ticketing. Það mun auðvelda viðskiptavinum okkar að nýta þjónustuna. Þá losnar fólk við klinkið.“

„Við förum á næstu vikum í notendaprófanir. Vinnan gengur vel og það er allt á áætlun.“ Kolbeinn segist vonast til þess að hægt verði að taka kerfið í gagnið strax á þessu ári.

Fyrsta útgáfan af kerfinu verður einföld og auðveld í notkun. Munu viðskiptavinir fyrst um sinn aðeins geta keypt einstaklingsfargjald á höfuðborgarsvæðinu í gegnum smáforrit sem sótt er í símann. „Þú kaupir stakt fargjald með greiðslukorti og svo geturðu pantað fleiri en einn miða og geymt í appinu.“  Kolbeinn segir síðan áframhaldandi þróun forritsins vera stefnuna. Unnið verður að því að hægt verði að kaupa áskriftarkort seinna meir en fyrst um sinn sé stefnan aðeins að koma forritinu út til notenda.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×