Skoðun

Menningin er vel metin

Katrín Pálsdóttir skrifar
Í þjónustukönnunum Capacent, sem gerð er á hverju ári, kemur fram að Seltirningar kunna svo sannarlega að meta framlag  til menningarmála.  Undanfarin ár fær bærinn einkunnina 4 eða 4.5  af 5 mögulegum og þar með hæstu eða  næst hæstu einkunn af sveitarfélögum á  landinu í  málaflokknum. Þjónustukönnunin hvetur okkur til að halda áfram á sömu braut.  Metþátttaka  var í menningarhátíðinni síðastliðið haust og lætur nærri að sérhver Seltirningur hafi notið hátíðarinnar. Gestir voru hátt á fjórða þúsund og þeir sem komu að hátíðinni og lögðu henni lið voru um tvö hundruð, fólk á öllum aldri.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig ungir og aldnir hafa unnið saman þegar hátíð er í bæ  t.d. við útilistaverk í undirgöngunum við Eiðistorg og í listasmiðjum. Þá ber að nefna frábært kórastarf  þar sem Gömlu meistararnir og Litlu snillingarnir hefja saman upp raust sína við ýmis tækifæri. Eldri borgarar hafa tekið virkan þátt í menningarlífi bæjarins. Framlag þeirra er til fyrirmyndar og auðgar mannlífið.

Bókasafnið er menningarmiðstöð Seltirninga. Þangað koma foreldrar með börnin sín og njóta þess sem upp á er boðið. Eldri borgarar hafa tekið virkan þátt í bókmenntakvöldum, sótt tónleika í safninu, notið listsýninga í Eiðisskeri og sótt ýmis handverksnámskeið. Það er ánægjulegt að sjá hvernig kynslóðirnar sameinast á safninu.

Tilgangur menningarstefnu Seltjarnarness er að íbúar bæjarins fái notið menningar- og lista. Leiðarljós stefnunnar er að efla áhuga, löngun og möguleika bæjarbúa til að njóta menningar. Í menningarstefnu Seltjarnarness segir að menningarstarf eigi að vera veigamikill þáttur í bæjarlífinu árið um kring og eigi að efla bæjarbraginn og ímynd Seltjarnarness út á við.

Ljóst er að íbúar á Seltjarnarnesi kunna að meta það menningarstarf sem boðið hefur verið uppá undanfarin ár og því starfi verður haldið áfram þannig að menningin í bænum eflist og dafni á næstu árum.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×